VÍS tryggingar hf. fær starfsleyfi sem vátryggingafélag
Hinn 23. desember 2024 veitti fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands VÍS tryggingum hf. starfsleyfi sem vátryggingafélag samkvæmt lögum nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi. Í leyfinu felst að félaginu er heimilt að stunda frumtryggingastarfsemi í öllum greinaflokkum vátrygginga, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2016, fyrir utan greiðsluvátryggingar. Auk þess hefur félagið heimild til að stunda endurtryggingastarfsemi í sömu greinaflokkum skv. 22. gr. laga nr. 100/2016.
Samhliða útgáfu starfsleyfis VÍS trygginga komst fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu að Vátryggingafélag Íslands hf. væri hæft til að fara með beinan virkan eignarhlut í VÍS tryggingum hf. sem nemur yfir 50% hlutfjár, sbr. 1. mgr. 58. gr. vtsl., eða að svo miklu leyti að það teljist dótturfélag Vátryggingafélags Íslands hf.
Þá hefur fjármálaeftirlitið komist að þeirri niðurstöðu, samhliða útgáfu á starfsleyfi VÍS trygginga hf., að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins væri hæfur til að fara með óbeinan, virkan eignarhlut í VÍS tryggingum hf. eða allt að 20% hlutfjár, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 100/2016.
Enn fremur hefur fjármálaeftirlitið komist að þeirri niðurstöðu, samhliða útgáfu á starfsleyfi VÍS trygginga hf., að VÍS tryggingar hf. sé hæft til að fara með beinan, virkan eignarhlut í Líftryggingafélagi Íslands hf. sem nemur yfir 50% hlutafjár, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 100/2016 eða að svo miklu leyti að það teljist dótturfélag VÍS trygginga hf.