Þórarinn G. Pétursson skipaður í embætti varaseðlabankastjóra peningastefnu
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefur skipað Þórarinn G. Pétursson í embætti varaseðlabankastjóra peningastefnu til fimm ára frá og með deginum í dag.
Þórarinn er með Cand. Oecon próf í hagfræði frá Háskóla Íslands, meistarapróf í hagfræði frá Essex-háskóla í Bretlandi og doktorspróf í hagfræði frá Árósa-háskóla í Danmörku.
Þórarinn hefur starfað í Seðlabanka Íslands frá árinu 1994. Hann hefur verið aðalhagfræðingur og framkvæmdastjóri hagfræði- og peningastefnusviðs frá árinu 2009 og sat í peningastefnunefnd bankans á árunum 2009-2019. Áður starfaði hann m.a. sem forstöðumaður rannsóknar- og spádeildar hagfræðisviðs og sem deildarstjóri hagrannsókna. Þá hefur hann um árabil ritstýrt Peningamálum þar sem Seðlabankinn gerir grein fyrir mati sínu á stöðu og horfum í efnahags- og peningamálum.
Þórarinn býr yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum. Hann hefur umtalsverða reynslu af háskólakennslu í hagfræði og hefur sem aðalhagfræðingur stýrt hagfræðigreiningum og spágerð Seðlabankans. Þá hefur hann ritað fjölda fræðigreina, rannsóknarritgerða og bókarkafla sem birst hafa í innlendum og erlendum vísindaritum. Þórarinn hefur einnig mikla reynslu af alþjóðlegu samstarfi í gegnum stofnanir á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) og Efnahags- og framfarastofnunina (OECD) og erlenda seðlabanka.
Sjá á vef Stjórnarráðsins: Þórarinn G. Pétursson skipaður í embætti varaseðlabankastjóra peningastefnu