Ritið Kostnaður við smágreiðslumiðlun gefið út
Seðlabanki Íslands hefur birt ritið Kostnaður við smágreiðslumiðlun. Í ritinu er að finna upplýsingar um kostnað við reiðufé, greiðslukort og aðra greiðsluþjónustu, bæði einkakostnað og samfélagskostnað.
Seðlabankinn safnar árlega gögnum um þjónustugjöld sem eru lögð á í greiðsluþjónustu og við notkun helstu greiðslumiðla hér á landi. Á tveggja til þriggja ára fresti leggur bankinn jafnframt mat á samfélagskostnað við smágreiðslumiðlun. Markmið gagnasöfnunar er að varpa ljósi á kostnað við notkun ólíkra greiðslumiðla og greiðsluþjónustu og svo hægt sé að meta hvort tiltekinn greiðslumiðill eða greiðsluþjónusta sé hagkvæmari í rekstri en önnur fyrir samfélagið.
Áætlaður samfélagskostnaður af notkun greiðslumiðla hér á landi var um 54 ma.kr. á verðlagi árs 2023 eða um 1,25% af vergri landsframleiðslu og lækkaði frá síðustu mælingu árið 2021. Samfélagskostnaður felur í sér kostnað við aðföng og laun við greiðslumiðlun. Dæmi um samfélagslegan kostnað er fjárfesting í greiðslukerfum, útgáfa reiðufjár, launakostnaður starfmanna sem taka á móti greiðslum, tryggingar, öryggishólf, tap vegna fjársvika og sá tími sem það tekur að nota tiltekinn greiðslumiðil eða greiðsluþjónustu.
Kostnaður heimila hækkaði milli ára. Áætlað er að heimilin á Íslandi hafi greitt um 14,4 ma.kr. í bein þjónustugjöld á árinu 2023. Óbein þjónustugjöld námu um 17,5 ma.kr. en það eru gjöld sem söluaðilar greiða beint til færsluhirða vegna greiðslukortanotkunar
Sjá nánar hér: Kostnaður við smágreiðslumiðlun