
Könnun á væntingum markaðsaðila

Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 20. til 22. janúar sl. Leitað var til 39 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana, fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar og tryggingafélaga. Svör fengust frá 30 aðilum og var svarhlutfallið því 77%.
Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að verðbólguvæntingar markaðsaðila til skamms tíma hafi lítið breyst frá síðustu könnun í nóvember sl. Þeir vænta þess að verðbólga minnki áfram og verði 3,6% eftir eitt ár, 3,3% eftir tvö ár og 3,4% að meðaltali næstu fimm ár. Langtímaverðbólguvæntingar þeirra hækkuðu hins vegar milli kannana og búast þeir nú við því að verðbólga verði 3,4% að meðaltali næstu tíu ár samanborið við 3% í síðustu könnun. Samkvæmt niðurstöðum úr könnuninni búast markaðsaðilar við því að gengi krónunnar lækki á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 150 krónur eftir eitt ár.
Miðað við miðgildi svara í könnuninni gera markaðsaðilar ráð fyrir því að meginvextir Seðlabankans lækki áfram og verði 7,75% í lok núverandi ársfjórðungs, 6,75% eftir eitt ár og 5,75% eftir tvö ár. Þetta eru sömu vextir og markaðsaðilar væntu í síðustu könnun.
Hlutfall svarenda sem taldi taumhaldið vera of þétt minnkaði lítillega milli kannana og var 80%, samanborið við 87% í síðustu könnun. Um 20% töldu taumhaldið vera hæfilegt samanborið við 13% í nóvember en enginn svaraði því að taumhaldið væri of laust.
Dreifing svara um væntingar til verðbólgu var minni en í nóvemberkönnuninni á flesta mælikvarða. Dreifing svara markaðsaðila um væntingar til vaxta jókst hins vegar á nær alla mælikvarða milli kannana.
Markaðsaðilar voru einnig spurðir um þróun fasteignamarkaðarins á næstu tólf mánuðum. Helmingur svarenda taldi að velta á fasteignamarkaði muni minnka á næstu tólf mánuðum. Svör markaðsaðila varðandi verðþróun voru nokkuð dreifð en þriðjungur svarenda tók fram að þau telji að raunverð húsnæðis lækki á næstu tólf mánuðum og annar þriðjungur að það hækki.
Sjá niðurstöður væntingakönnunarinnar hér: Könnun á væntingum markaðsaðila, 1. ársfjórðungur 2025. Birt 29. janúar 2025
Frekari upplýsingar um könnun á væntingum markaðsaðila má finna hér: Væntingakönnun markaðsaðila