logo-for-printing

06. mars 2025

Halli á viðskiptajöfnuði 95,2 ma.kr. á fjórða ársfjórðungi 2024 – hrein staða við útlönd jákvæð um 42,5% af VLF

Á fjórða ársfjórðungi 2024 var 95,2 ma.kr. halli á viðskiptajöfnuði við útlönd. Það er 147,4 ma.kr. lakari niðurstaða en ársfjórðunginn á undan og 77,7 ma.kr. lakari en á sama fjórðungi árið 2023. Halli á vöruskiptajöfnuði var 104,1 ma.kr. en 34,5 ma.kr. afgangur var á þjónustujöfnuði. Halli á frumþáttatekjum nam 10,5 ma.kr. og 15,1 ma.kr. á rekstrarframlögum.

Þetta kemur fram í nýbirtum upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands sem sýna bráðabirgðayfirlit yfir greiðslujöfnuð við útlönd á fjórða ársfjórðungi 2024 og erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Halli á viðskiptajöfnuði fyrir árið 2024 í heild nam 116,8 ma.kr. samanborið við 36,5 ma.kr. afgang árið á undan. Halli á vöruskiptajöfnuði var 314,5 ma.kr. en afgangur á þjónustujöfnuði var 261,7 ma.kr. Halli á frumþáttatekjum nam 10,6 ma.kr. og 53,4 á rekstrarframlögum.

Nokkur óvissa er í upplýsingum sem Seðlabankinn hefur um fjármagnsviðskipti vegna uppgjörs á sölu innlends iðnfyrirtækis til erlendra aðila og er það ein helsta ástæða fyrir hárri tölu í liðnum Skekkjur og vantalið, nettó. Um er að ræða flókin viðskipti sem snertir fjölmargra aðila bæði innanlands og utan. Líkur eru á endurskoðun hagtalnanna þegar endanlegar tölur liggja fyrir. Áhrif þessa ná einungis til fjármagnsjafnaðar og erlendrar stöðu þjóðarbúsins en áhrif á viðskiptajöfnuð eru engin.

Í lok ársfjórðungsins var hrein staða við útlönd jákvæð um 1.963 ma.kr. eða 42,5% af vergri landsframleiðslu (VLF) og batnaði um 120 ma.kr. eða 2,6% af VLF á fjórðungnum. Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 6.549 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 4.586 ma.kr. Á fjórðungnum batnaði staðan um 79 ma.kr. vegna fjármagnsviðskipta. Erlendar eignir jukust um 140 ma.kr. og skuldir um 61 ma.kr. Gengis- og verðbreytingar juku virði eigna á ársfjórðungnum um 21 ma.kr. en minnkuðu virði skulda um 30 ma.kr. og leiddu því til 51 ma.kr. betri hreinnar erlendrar stöðu. Gengi krónunnar hækkaði um tæp 3,5% á ársfjórðungnum miðað við gengisskráningarvog. Verð á erlendum verðbréfamörkuðum lækkaði um 0,4% milli fjórðunga og verð á bréfum á innlendum hlutabréfamarkaði hækkaði um 16,3%.

Sjá hér nánari upplýsingar: Halli á viðskiptajöfnuði 95,2 ma.kr. á fjórða ársfjórðungi 2024 – hrein staða við útlönd jákvæð um 42,5% af VLF

Frétt nr. 3/2025

6. mars 2025

Til baka