
Endurskoðuð Almenn viðmið og aðferðafræði vegna könnunar- og matsferlis hjá fjármálafyrirtækjum
.jpg?proc=AdalmyndFrett)
Markmið hinna almennu viðmiða er að skilgreina og kynna með almennum hætti aðferðafræði og framkvæmd könnunar- og matsferlis fjármálaeftirlitsins. Aðferðafræðin er í samræmi við viðmiðunarreglur Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA) um könnunar- og matsferli og álagspróf (EBA/GL/2022/03). Viðmiðunarreglur EBA fela í sér ítarlegri lýsingu á aðferðafræði við könnunar- og matsferli sem fjármálaeftirlitið starfar samkvæmt við eftirlitsframkvæmd sína og vísast því almennt til þeirra til nánari skýringa.
Við endurskoðun almennu viðmiðanna nú voru lagatilvísanir uppfærðar og ýmsar minni háttar efnislegar breytingar og leiðréttingar gerðar. Við endurskoðun á viðauka 1, sem fjallar um útlána- og samþjöppunaráhættu, hefur meðal annars tafla með viðmiðunarverði fyrir fiskveiðikvóta sem veðandlag verið uppfærð. Sú breyting hefur verið gerð á aðferðafræði fyrir lántakasamþjöppun að við mat á henni verður nú eingöngu horft fram hjá áhættuskuldbindingum sem fengið hafa 0% áhættuvog og lána í alvarlegum vanskilum. Þá hefur samanburður á ÍSAT2008 atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands við sams konar flokkun samkvæmt svonefndri FINREP-skýrslu verið felldur brott þar síðarnefnda flokkunin byggir á atvinnugreinaflokkun Evrópusambandsins (NACE) sem ÍSAT2008 gerir líka. Viðauki 2, sem fjallar um markaðsáhættu, hefur aðallega verið uppfærður vegna mats á fastvaxtaáhættu. Tveimur nýjum viðmiðum hefur verið bætt við, en þau byggja á nýlegum viðmiðunarreglum EBA (EBA/GL/2022/14) og framseldum reglugerðum (ESB) 2024/856 og 2024/857, sbr. reglur nr. 1341/2024. Á viðauka 3, sem fjallar um eiginfjárauka, hafa einungis lagatilvísanir uppfærðar auk þess voru minni háttar orðalagsbreytingar og leiðréttingar gerðar.
Endurskoðuðu viðmiðin má nálgast hér: Almenn viðmið og aðferðafræði vegna könnunar- og matsferlis hjá fjármálafyrirtækjum.