logo-for-printing

Kostnaður við smágreiðslumiðlun

Seðlabanki Íslands hefur birt fyrsta ritið í nýrri ritröð sem fengið hefur nafnið Kostnaður við smágreiðslumiðlun. Ritið mun koma út einu sinni á ári.

Í ritinu gerir Seðlabankinn grein fyrir því hvaða greiðslumiðlar og greiðsluþjónusta er helst notuð til greiðslu á vöru og þjónustu hérlendis og til millifærslu fjármuna á annan einstakling, bæði innanlands og yfir landamæri. Í ritinu er einnig birt yfirlit yfir gjöld sem þátttakendur í virðiskeðju greiðslumiðlunar (heimili, greiðsluþjónustuveitendur og sölu- og þjónustuaðilar) greiða öðrum þátttakendum fyrir notkun greiðslumiðla og greiðsluþjónustu. Þessar upplýsingar verða birtar árlega. Á tveggja til þriggja ára fresti verða jafnframt birtar niðurstöður úr mati Seðlabankans á samfélagskostnaði við smágreiðslumiðlun og er það gert í ritinu sem kom út í dag. Markmið gagnasöfnunar er að varpa ljósi á kostnað við notkun ólíkra greiðslumiðla og greiðsluþjónustu og meta hvort tiltekinn greiðslumiðill eða greiðsluþjónusta sé hagkvæmari í rekstri en önnur fyrir samfélagið.

Seðlabankinn hefur áður lagt mat á samfélagskostnað í greiðslumiðlun, þ.e. árin 2016 og 2018, og birtust niðurstöðurnar í ritröðinni Fjármálainnviðir en útgáfu hennar hefur verið hætt.

Sjá hér talnagögn sem birt eru í ritinu: Talnagögn í ritinu Kostnaður við smágreiðslumiðlun.

Til baka