logo-for-printing

Birtingarstaðall AGS (SDDS)

Árið 1996 kom Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á fót sérstökum birtingarstaðli (Special Data Dissemination Standard, skammstafað SDDS) fyrir hagtölur/tölfræðiupplýsingar. Seðlabankinn gerðist aðili að birtingarstaðlinum 21. júní 1996. Í birtingarstaðlinum er meðal annars gert ráð fyrir að tilteknar tölfræðilegar upplýsingar birtist innan tilgreinds frests frá lokum þess tíma sem þær gilda fyrir. Áætlun um birtingartíma upplýsinganna skal ákveðin fyrirfram. Með hliðsjón af þessu birtir Seðlabankinn á vefsíðu sinni birtingaráætlun fyrir hagtölur. Tölfræði sem heyrir undir staðalinn birtist í hagtölum Seðlabankans fyrir bankakerfið, efnahag Seðlabankans, beina fjárfestingu, erlenda stöðu Seðlabankans, erlenda stöðu þjóðarbúsins, erlendar skuldir, gjaldeyrisforða og tengda liði, greiðslujöfnuð við útlönd, vexti og vísitölur hlutabréfa.

Birtingastaðallinn kveður á um að opinber aðili skuli endurbirta helstu hlutabréfavísitölur. Á vefsíðu Kauphallar Íslands má meðal annars sjá úrvalsvísitölu (OMX Iceland 6 PI ISK) og heildarvísitölu aðallista (OMXIPI). Hér má sjá lýsigögn fyrir hlutabréfavísitölur.

Auk þessa birtir Seðlabankinn í samræmi við kröfur staðalsins upplýsingar um gjaldeyrisforða í fréttatilkynningu um efnahagsreikning Seðlabanka Íslands og gengisskráningu á aðalvalmynd á vefsíðu bankans. Í tengslum við birtingarstaðalinn er haldið úti vefsíðu þar sem birt eru gögn sem staðallinn tekur til. Vefsíðunni er haldið úti í samvinnu Seðlabankans, fjármálaráðuneytisins og Hagstofu Íslands.

Auk þess að kveða á um birtingaráætlanir gerir staðallinn kröfu til þess að upplýsingarnar sem hann tekur til séu settar fram í samræmi við skilgreiningar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þannig að þær séu sambærilegar á milli landa.

Á heimasíðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að finna nánari upplýsingar um birtingarstaðalinn. Á þeirri síðu og sérstakri vefsíðu fyrir upplýsingar um birtingarvenjur þeirra landa sem aðild eiga að staðlinum er greint frá upplýsingamiðlun Seðlabankans og annarra íslenskra stofnana sem skuldbundnar eru til að fylgja staðlinum.