
Skilasjóður
Með setningu laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, var sérstakur skilasjóður stofnaður. Sjóðnum er ætlað að standa straum af kostnaði vegna skilameðferðar fjármálafyrirtækja. Skilasjóður er deild í Tryggingarsjóði vegna fjármálafyrirtækja. Stjórn Tryggingarsjóðsins fer með umsýslu sjóðsins en skilavald Seðlabanka Íslands tekur ákvarðanir um greiðslur úr skilasjóði.
Í samræmi við tilskipun 2014/59/ESB um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja ber hverju aðildarríki innan EES að sjá til þess að skilasjóðir ríkjanna nái 1% af tryggðum innstæðum fyrir árslok 2027. Skilasjóðurinn hér á landi er nú þegar fullfjármagnaður og uppfyllir skyldur samkvæmt tilskipuninni. Endanlegt fyrirkomulag varðandi fjármögnun skilasjóðs var ákvarðað með setningu laga nr. 48/2022. Sjóðurinn verður fullfjármagnaður með flutningi fjármuna úr innstæðudeild Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta í sjóðinn. Fyrir árslok 2022 verður stærð sjóðsins tæpir 29 milljarðar króna.
Fullfjármagnaður skilasjóður tryggir að skilameðferð getur farið fram á skilvirkan hátt ef nauðsyn krefur.