
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS)
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (e. International Monetary Fund) hefur það að markmiði að efla alþjóðlega samvinnu í gjaldeyrismálum, stuðla að stöðugu gengi gjaldmiðla og greiða fyrir frjálsum gjaldeyrisviðskiptum. Seðlabanki Íslands er fjárhagslegur aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) fyrir hönd íslenska ríkisins.
Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru í Washington D.C. í Bandaríkjunum og fer dagleg yfirstjórn fram þar. Ísland á samstarf við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin á vettvangi sjóðsins. Þessi lönd mynda eitt af 24 svo kölluðum kjördæmum sjóðsins.
Sýna allt
Um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) er mikilvægur samstarfsvettvangur nær allrar þjóðríkja á sviði efnahags og peningamála. Skipta má starfsemi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þrjá meginþætti; eftirlit með alþjóðahagkerfinu og efnahagslífi einstakra aðildarríkja ásamt ráðgjöf, fjárhagsleg aðstoð og tæknileg aðstoð við aðildarríkin. Auk þessara þátta hefur verið lögð sífellt meiri áhersla á sérstaka aðstoð við fátækustu aðildarríkin bæði fjárhagslega og tæknilega.
Eftirlitsstarfsemi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. surveillance) og ráðgjöf
Almennt eftirlit með efnahagslífi aðildarlandanna er eitt af meginverkefnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Eftirlitið er einkum með tvennum hætti. Annars vegar eru aðildarríkin heimsótt reglulega af sérfræðingum sjóðsins sem gera úttekt á stöðu og horfum í efnahagslífi þeirra. Hins vegar er gerð heildstæð úttekt á stöðu og horfum á heimsbúinu og í alþjóðafjármálakerfinu.
Eftirlit með efnahagsmálum í aðildarríkjunum felst í megindráttum í því að sjóðurinn metur hvernig efnahagsþróun og efnahagsstefna þeirra samrýmist sjálfbærum hagvexti og stöðugleika. Í viðræðum við aðildarríkin er meðal annars fjallað um gengismál, ríkisfjármál, peningamál, greiðslujöfnuð og fjármálastöðugleika. Athyglinni er einnig gjarnan beint að innviðum hagkerfanna og atvinnumálum. Í lok hverrar heimsóknar afhendir sendinefnd sjóðsins stutt álit (e. concluding statement) og í kjölfar þess semur sendinefndin ítarlega skýrslu til framkvæmdastjórnar sjóðsins. Flest aðildarlönd sjóðsins birta þessar skýrslur opinberlega, þar á meðal Ísland. Hverju aðildarríki er í sjálfsvald sett hvort það fylgir efnahagsráðgjöf sjóðsins.
Eftirlitsstarfsemi sjóðsins hefur þróast talsvert í tímans rás. Á fyrstu starfsárum hans var aðallega fylgst með peningamálum, ríkisfjármálum og viðskiptajöfnuði en í kjölfar frjálsari fjármagnsflutninga hefur eftirlit í vaxandi mæli beinst að fleiri þáttum, eins og fjármálastöðugleika og leiðum til þess að afstýra fjármálakreppu. Í efnahagsumhverfi nútímans geta efnahags- og fjármálakreppur í einu landi hæglega haft áhrif á önnur lönd og efnahagssvæði. Því er nauðsynlegt að hafa alþjóðlegan vettvang þar sem hægt er að hafa samráð á breiðum grundvelli og bregðast við áföllum.
Tæknileg aðstoð
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veitir tæknilega aðstoð (e. technical assistance) á sérsviðum sínum. Þessi aðstoð er yfirleitt veitt án endurgjalds þeirra ríkja sem njóta hennar. Um þremur fjórðu hlutum aðstoðarinnar er veitt til fátækra aðildarríkja og stærsti hlutinn er við Afríkulönd sunnan Sahara. Aðstoð er veitt á ýmsan hátt. Til dæmis eru sérfræðingar sjóðsins sendir til lengri eða skemmri tíma til aðildarlanda og veita þar margháttaða sérfræðiaðstoð. Í höfuðstöðvum sjóðsins í Washington eru gerðar haggreiningar og haglýsingar á löndum. Jafnframt er boðið upp á námskeið og málstofur.
Lánastarfsemi
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn býður aðildarríkjum sem eiga í greiðsluerfiðleikum fjárhagsaðstoð. Þessi lán eru yfirleitt með hagstæðari kjörum en lán sem bjóðast á almennum markaði en eru jafnan skilyrt því að efnahagsumbætur eigi sér stað í lántökuríkjunum. Auk þess að veita hefðbundin lán, lánalínur sem hægt er að draga á ef að kreppir og neyðarlán hefur sjóðurinn unnið með skuldsettum þróunarríkjum í þeim tilgangi að létta skuldabyrði þeirra. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lánar ekki til einstakra framkvæmda.
Áhersla á að draga úr fátækt í heiminum
Áhersla er lögð á það í starfi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að minnka fátækt í heiminum í samvinnu við aðrar alþjóðastofnanir og stjórnvöld í iðnríkjunum. Sjóðurinn býður fátækustu ríkjum heims lán á mjög hagstæðum kjörum og leitast við að tryggja að ekkert fátækt land standi frammi fyrir of þungri skuldabyrði þar sem það gengur gegn áætlunum sem miða að því að minnka fátækt í þessum löndum.
Tildrög að stofnun sjóðsins
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á ásamt Alþjóðabankanum rætur sínar að rekja til ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í Bretton Woods í New Hampshire fylki í Bandaríkjunum 1.-22. júlí, árið 1944. Markmið ráðstefnunnar var m.a. að koma á fót nýjum vettvangi efnahagssamvinnu sem hefði það hlutverk að efla alþjóðlega samvinnu í gjaldeyrismálum, stuðla að stöðugu gengi mynta og greiða fyrir frjálsum gjaldeyrisviðskiptum. Ein meginástæða þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var komið á fót var að í byrjun fjórða áratugar síðustu aldar varð mikil efnahagslægð, kreppan mikla. Í kjölfar hennar fylgdu nær öll ríki heims einangrunarstefnu sem leiddi til mikils samdráttar í viðskiptum og aukins atvinnuleysis. Tilgangur hins nýja vettvangs efnahagssamvinnu var að koma í veg fyrir að sagan endurtæki sig.
Starfsemi sjóðsins er aðallega fjármögnuð með framlögum (e. quotas) aðildarríkjanna samkvæmt reglum sem taka í grundvallaratriðum tillit til efnahagslegrar stærðar þeirra og er því hlutur iðnríkjanna stærstur.
Stjórnskipulag sjóðsins
Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru í Washington D.C. í Bandaríkjunum. Starfsfólk er á þriðja þúsund, aðallega hagfræðingar.
Æðsta vald í málefnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er hjá sjóðráði (e. Board of Governors) sem er skipað einum fulltrúa frá hverju landi, venjulega fjármálaráðherra eða seðlabankastjóra. Sjóðráð kemur saman að jafnaði einu sinni á ári. Næst sjóðráði stendur fjárhagsnefndin (e. International Monetary and Financial Committee, áður Interim Committee) sem fundar að jafnaði tvisvar á ári, vor og haust. Nefndin er ráðgefandi fyrir sjóðráðið og mótar áherslur í starfi framkvæmdastjórnar sjóðsins (e. Executive Board). Í fjárhagsnefnd sjóðsins á hvert kjördæmi einn fulltrúa sem er ráðherra eða seðlabankastjóri. Hvert kjördæmi velur einn aðalfulltrúa í framkvæmdastjórn sjóðsins.
Dagleg yfirstjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er í höndum framkvæmdastjórnarinnar sem situr í Washington og heldur fundi tvisvar til þrisvar í viku. Í henni eiga sæti 24 framkvæmdastjórar, einn fyrir hvert kjördæmi sjóðsins. Fyrir fundi framkvæmdastjórnar eru lagðar skýrslur sérfræðinga sjóðsins. Framkvæmdastjórnin fjallar meðal annars um framvindu og stöðu efnahagsmála í aðildarlöndunum og í heimsbúskapnum, lánveitingar til einstakra ríkja, ráðstafanir til að fyrirbyggja fjármálakreppu, stuðning við fátækustu aðildarríkin og síðast en ekki síst stefnu sjóðsins og eftirlitshlutverk hans.Ísland og AGS
Ísland var eitt 29 stofnríkja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en aðildarlönd eru í dag 188. Ísland á samstarf við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin á vettvangi sjóðsins. Norðurlöndin hafa starfað saman í áratugi innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða síðan 1952 en Eystrasaltsríkin gengu til liðs við þau árið 1992 eftir að þau höfðu hlotið aðild að sjóðnum. Saman mynda þessi ríki eitt af 24 svokölluðum kjördæmum sjóðsins (e. constituencies).
Fjármagn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur aðallega frá kvótaframlögum sem lönd borga við inngöngu í sjóðinn. Kvótarnir eiga að endurspegla hlutfallslega stærð aðildarlanda í alþjóðahagkerfinu. Kvótinn er ákveðinn meðal annars með tilliti til vergrar landsframleiðslu og umfangs alþjóðaviðskipta landanna. Atkvæðavægi kjördæmanna innan sjóðsins ræðst einnig af kvótanum og þeirri fjármögnun sem aðildarríki geta fengið frá sjóðnum. Heildaratkvæðavægi kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja er 3,4% af heildinni. Kvótahlutur Íslendinga er 117,6 milljónir SDR eða 0,05% af heildarkvóta sjóðsins.
Aðalfulltrúi (e. Executive Director) kjördæmisins stýrir skrifstofu kjördæmisins hjá sjóðnum og situr fundi framkvæmdastjórnar. Hvert land sendir einn fulltrúa til starfa á skrifstofunni. Fyrir fundi framkvæmdastjórnar eru sjónarmið kjördæmisins í mikilvægum málum samræmd á vettvangi seðlabanka og fjármála- eða efnahagsráðuneyta Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Fjárhagsnefnd Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (e. Nordic Baltic Monetary and Financial Committee) fjallar einkum um samstarf landanna á vettvangi sjóðsins og mótar megináherslur kjördæmisins. Í henni sitja tveir fulltrúar frá hverju landi. Auk þess starfa undirnefndir og starfshópar að stefnumótun. Að öðru leyti undirbýr skrifstofa kjördæmisins í sjóðnum afstöðu kjördæmisins í samræmi við viðurkennda stefnu þess.
Á vefsíðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að finna ýmsar upplýsingar um samstarf Íslands og sjóðsins.
Aðstoð sjóðsins við Ísland
Ísland hefur fimm sinnum hlotið fjárhagsaðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Fyrsta lánið var veitt 1960 í tengslum við efnahagsumbætur stjórnvalda, viðreisnina. Eftir það fékk Ísland þrisvar sinnum lán hjá sjóðnum vegna greiðsluhallaerfiðleika. Árin 1967-1968 vegna skyndilegrar og stórfelldrar minnkunar útflutningstekna. Enn árin 1974-1976 úr sérstökum olíusjóði (e. Oil Facility) vegna hækkunar á olíuverði og aftur 1982 úr sérstakri lánadeild vegna samdráttar í útflutningstekjum. Í kjölfar bankahrunsins í október 2008 óskuðu íslensk stjórnvöld formlega eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Samkomulag var gert á grundvelli efnahagsstefnu og var lánafyrirgreiðsla til Íslands samþykkt 19. nóvember 2008. Einn af meginþáttum í starfsemi sjóðsins er eftirlit með efnahagsmálum landa. Úttektir á íslenskum efnahagsmálum eru gerðar með reglulegu millibili á eins til tveggja ára fresti.
Efnahagsáætlun AGS og íslenskra stjórnvalda
Efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda
Í kjölfar bankahrunsins í október 2008 óskuðu íslensk stjórnvöld formlega eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Samkomulag var gert á grundvelli efnahagsstefnu sem hafði í meginatriðum þríþætt markmið. Í fyrsta lagi að koma á stöðugleika á gjaldeyrismarkaði, í öðru lagi að móta stefnu í ríkisfjármálum með það meginmarkmið að koma á sjálfbærri skuldastöðu og í þriðja lagi að endurreisa fjármálageirann og viðurkenndar leikreglur. Áætlunin var gerð til tveggja ára.
Viljayfirlýsing stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um samstarf var undirrituð 3. nóvember og var lánafyrirgreiðsla samþykkt 19. nóvember 2008 í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Samkvæmt áætluninni skyldi Ísland fá sem næmi 2,1 milljarði Bandaríkjadala (1,4 ma. SDR) að láni frá sjóðnum í áföngum. Auk þess fengust viðbótarlán sem námu allt að 2,3 milljörðum Bandaríkjadala frá Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð (1,775 ma. EUR) og Póllandi (204 m. PLN). Loks lánuðu Færeyingar Íslendingum sem nam um 50 milljónum Bandaríkjadala (300 m. DKK). Lánið frá sjóðnum átti að greiðast til baka á árunum 2012 til 2016 en var endurgreitt að fullu í október 2015. Lánin frá Norðurlöndunum voru á gjalddaga 2019-2021, Færeyjum 2013-2015 og Póllandi 2015-2022 en þau voru fyrirframgreidd á árunum 2012-2015.
Upplýsingar um lánafyrirgreiðslu Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum:
Sjötta endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og AGS - lokalánafyrirgreiðsla
26. ágúst 2011
Sjötta og síðasta endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS samþykkt - Efnahagsáætluninni lokið31. ágúst 2011
Gögn í tengslum við sjöttu endurskoðun á efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og AGSFimmta endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og AGS - sjötta lánafyrirgreiðsla
3. júní 2011
Fimmta endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS samþykkt6. júní 2011
Gögn í tengslum við fimmtu endurskoðunFjórða endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og AGS - fimmta lánafyrirgreiðsla
10. janúar 2011
Fjórða endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS samþykkt14. janúar 2011
Gögn í tengslum við fjórðu endurskoðunÞriðja endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og AGS - fjórða lánafyrirgreiðsla
29. september 2010
Þriðja endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS samþykkt4. október 2010
Gögn í tengslum við þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og AGSÖnnur endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og AGS - þriðja lánafyrirgreiðsla
16. apríl 2010
Annarri endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er lokið og lánafyrirgreiðsla að fjárhæð 160 milljónir Bandaríkjadala hefur verið samþykkt
Viljayfirlýsing íslenskra stjórnvalda í tengslum við aðra endurskoðun
Fyrsta endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og AGS - önnur lánafyrirgreiðsla
28. október 2009
03. nóvember 2009
Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í tengslum við fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og AlþjóðagjaldeyrissjóðsinsEfnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og AGS samþykkt
20. nóvember 2008
Framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samþykkir lánafyrirgreiðslu fyrir Ísland að fjárhæð 2,1 milljarður Bandaríkjadala sem er jafnvirði 293 ma.kr.26. nóvember 2008
Ísland: Lánafyrirgreiðsla - skýrslur AlþjóðagjaldeyrissjóðsinsÚttektir á íslensku efnahagslífi
Einn af meginþáttum í starfsemi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er eftirlit með efnahagsmálum landa. Úttektir á íslenskum efnahagsmálum eru gerðar með reglulegu millibili á eins til tveggja ára fresti. Í þessum úttektum funda starfsmenn sjóðsins með fulltrúum stjórnvalda og hagsmunaaðila. Í kjölfarið er gefin út skýrsla (e. Article IV) og fjallað um hana í framkvæmdastjórn sjóðsins. Ísland var á meðal fyrstu aðildarlanda til að hljóta mat á fjármálageiranum (e. Financial Sector Assessment Program, FSAP) og í framhaldinu var birt FSSA-skýrsla (e. Financial System Stability Assessment) árið 2001.
Hér má finna úttektir sjóðsins á íslensku efnahagslífi:
2019 Article IV Consultation-Press Release and Staff Report
2017 - Iceland Selected Issues
2016 Article IV - Iceland Selected Issues
2016 Article IV Consultation - Staff report; and Statement by the Executive Director for Iceland
2015 Sixth Post-Program Monitoring Discussions
2014 Article IV Consultation and Fifth Post-Program Monitoring Discussion
2014 Fourth Post-Program Monitoring Discussions
2013 Article IV Consultation and Third Post-Program Monitoring Discussions
Hér má finna úttektir sjóðsins á íslensku fjármálakerfi:
Iceland: 2023 Financial System Stability Asessment
- Matsskýrsla á fylgni við Basel-kjarnareglur um skilvirkt bankaeftirlit (e. Detailed assessment report (Basel Core Principles))
- Öryggisnet fjármálakerfisins og krísustjórnun (e. Financial safety net and Crisis management)
- Net- og rekstraröryggi, eftirlitsumgjörð og yfirsýn (e. Cyber and operational resilience, Supervision and Oversight)
- Yfirsýn og eftirlitsumgjörð lífeyrissjóða (e. Pension fund oversight)
- Álagspróf og greining á kerfisáhættu (e. Stress testing and Systemic risk analysis)
- Þjóðhagsvarúð (e. Macroprudential policies)
- Loftlagstengd fjárhagsáhætta í bankakerfinu (e. Climate-related financial risks in the banking sector)
- Peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (e. Anti-Money Laundering/Combating the financing of terrorism)
Iceland: 2014 Report on Observance of Standards and Codes
Iceland: 2008 Financial System Stability Assessment Update
Iceland: 2001 Financial System Stability Assessment
Kjördæmi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja
Ísland starfar með Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og myndar kjördæmi með þeim. Sameiginlega kjósa þessi lönd einn fastafulltrúa í framkvæmdastjórn sjóðsins sem í sitja alls 24 fulltrúar. Snemma árs 2020 tók Finninn Mika Pösö sæti í framkvæmdastjórninni fyrir hönd kjördæmis Norður- og Eystrasaltslanda. Löndin skiptast á um að eiga fulltrúa kjördæmisins í fjárhagsnefnd sjóðsins (International Monetary and Financial Committee, IMFC) þar sem hann kemur fram fyrir hönd þeirra allra. Embættismannanefnd (Nordic Baltic Monetary and Financial Committee, NBMFC) fjallar um samstarf landanna og mótar afstöðu þeirra til helstu mála á vettvangi sjóðsins sem gjarnan endurspeglast í ávarpi fulltrúa kjördæmisins á fundum IMFC. Að öðru leyti samhæfa löndin í nánu samtarfi afstöðu sína til mála sem koma til kasta framkvæmdastjórnarinnar.
Einu sinni á ári (áður tvisvar) sendir skrifstofa kjördæmisins frá sér greinargerð um helstu mál sem verið hafa til umræðu í framkvæmdastjórninni.
Greinargerðirnar má finna hér:
Ár Vor Haust 2022 Desember 2022 2021
Desember 2021 2020 Desember 2020 2019 Desember 2019 2018 Júlí 2018 Desember 2018 2017 Júlí 2017 Desember 2017 2016 Júlí 2016 Desember 2016 2015 Júlí 2015 Desember 2015 2014 Júlí 2014 Desember 2014 2013 Júlí 2013
Desember 2013
2012 Júní 2012 Desember 2012
2011 Apríl 2011 2010 September 2010 2009 Júní 2009 Desember 2009 2008 Apríl 2008 Október 2008 2007 Maí 2007 Nóvember 2007 2006 Apríl 2006 Október 2006 2005 Apríl 2005 September 2005 2004 Apríl 2004 Október 2004