
Spurt og svarað
Hér að neðan eru nokkrar algengar spurningar um gengismál og svör við þeim.
Sýna allt
Hvað er gengisvísitala?
Gengisvísitala er vegið faldmeðaltal af gengi helstu gjaldmiðla gagnvart krónu. Hækkun vísitölunnar táknar lækkun á gengi krónunnar. Gengi erlendu gjaldmiðlana er vegið saman eftir samsetningu utanríkisviðskipta þjóðarinnar. Nánar er fjallað um val á gjaldmiðlum og vogir gengisvísitölunnar á síðunni Endurskoðun á gjaldmiðlavogum.
Hvar má finna tölur um gengisskráningu?
Tölur um gengisskráningu má finna undir hlekknum Opinber gengisskráning. Gengi annarra gjaldmiðla má finna á ýmsum vefsíðum, t.d. oanda.com. Seðlabanki Íslands ber enga ábyrgð á upplýsingum sem er að finna á slíkum vefsíðum eða notkun aðila á þeim auk þess sem minnt er á almennan fyrirvara um áreiðanleika upplýsinga á vefnum, samanber það sem segir á síðu um höfundarétt og afsal ábyrgðar.
Hvenær er gengið skráð?
Gengi íslensku krónunnar er ákvarðað á gjaldeyrismarkaði sem er opinn á milli kl. 9:15 og 16:00 hvern virkan dag. Einu sinni á dag skráir Seðlabanki Íslands opinbert viðmiðunargengi krónunnar gagnvart erlendum myntum til viðmiðunar í opinberum samningum, dómsmálum og öðrum samningum milli aðila þegar önnur gengisviðmiðun er ekki sérstaklega tiltekin, sbr. 29. gr. laga nr. 92/2019 um Seðlabankann, og um leið er skráð opinber gengisvísitala. Þetta er gert um kl. 16 á hverjum degi sem skipulegir gjaldeyrismarkaðir eru almennt starfandi. Þegar sérstaklega stendur á getur Seðlabankinn tímabundið fellt niður skráningu á gengi krónunnar.
Hvernig skráir Seðlabankinn gengi krónunnar?
Einu sinni á dag, um kl. 16:00, skráir Seðlabanki Íslands opinbert viðmiðunargengi krónunnar gagnvart helstu erlendu gjaldmiðlum, sem nú eru níu talsins. Skráningargengið er augnabliksmynd af stöðu markaðarins á þeim tíma sem það er skráð. Auk opinbera viðmiðunargengisins birtir Seðlabankinn einnig gengi krónu gagnvart hinum ýmsu erlendu gjaldmiðlum. Sú birting ákvarðast af því hvaða gjaldmiðlar eru í reiknuðum gjaldmiðlavogum hverju sinni (sjá Endurskoðun á gjaldmiðlavogum). Gjaldmiðlavogirnar eru ákvarðaðar út frá vöru- og þjónustuviðskiptum landsins við önnur lönd og sér Seðlabankinn um útreikning þeirra og birtingu. Skráning gjaldmiðils hjá Seðlabankanum segir hins vegar ekkert til um hvort hægt sé að eiga viðskipti með hann í innlendum viðskiptabönkum.
Hvernig er gengi krónunnar reiknað út frá gengisvísitölu?
Gengisvísitalan (GVT) mælir gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni. Gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum er því margföldunarandhverfa gengisvísitölunnar:
Hlutfallslega prósentubreytingu á gengi krónunnar milli tveggja tímabila má reikna út frá gengisvísitölu á eftirfarandi hátt:
Þar sem GVTt er gildi gengisvísitölunnar á tíma t og GVTt-k er k tímabilum eldra gildi vísitölunnar.
Dæmi:
Ef gildi gengisvísitölunnar var að jafnaði 200,9927 árið 2015 en að jafnaði 179,6289 árið 2016 er hlutfallsleg prósentubreyting á gengi krónunnar milli ára:Að jafnaði hækkaði gengi íslensku krónunnar því um 11,89% milli áranna 2015 og 2016.
Hvernig breytist gengi krónunnar?
Gengi íslensku krónunnar er ákvarðað á millibankamarkaði gjaldeyri sem er opinn á milli kl. 9:15 og 16:00 hvern virkan dag. Viðskiptavakar á markaðnum birta leiðbeinandi verð á krónu gagnvart evru á opnunartíma markaðarins. Gengi krónu gagnvart evru hreyfist helst þegar viðskiptavakar kaupa og selja evrur fyrir krónur. Þegar viðskiptavakar kaupa evrur fyrir krónur þá veikist gengið að öðru óbreyttu en styrkist ef þeir selja evrur fyrir krónur. Viðskiptavakar geta einnig breytt viðmiðunarverði án þess að viðskipti eigi sér stað.
Hvernig er gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum fundið út?
Viðskipti á millibankamarkaði fara eingöngu fram í evrum. Viðskiptavökum er skylt að gefa stöðugt upp verðtilboð í krónu gagnvart evru á opnunartíma markaðarins. Verðlagning krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum leiðir því af gengi evru á hverjum tíma. Við ákvörðun á verði íslenskrar krónu gagnvart danskri krónu þarf gengi þeirrar dönsku gagnvart evru og gengi krónu gagnvart evru. Evran er því grunngjaldmiðill (e. base currency) gagnvart öllum öðrum gjaldmiðlum sem Seðlabankinn skráir. Þetta fyrirkomulag einfaldar verðlagningu á gjaldmiðlum þar sem viðskiptavakarnir þyrftu að öðrum kosti stöðugt að gefa upp verðtilboð í krónu gagnvart öllum öðrum gjaldmiðlum en evru. Upplýsingar um gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart evru fær Seðlabankinn í gegnum gagnaveitur líkt og Reuters eða Bloomberg.
Dæmi
Hér má sjá dæmi um útreikning gengisskráningar á íslensku krónunni (ISK) gagnvart danskri krónu (DKK):
Gengi íslensku krónunnar á millibankamarkaði með gjaldeyri gagnvart evru er 135 ISK/EUR
Gengi dönsku krónunnar gagnvart evru á erlendum mörkuðum er 7,5 DKK/EUR
Gengi íslenskrar krónur gagnvart danskri 135/7,5 = 18,0 ISK/DKK
Skráð gengi dönsku krónunnar er því 18,0 íslenskar í hverri danskri krónu.