Söfn Seðlabankans
Seðlabanki Íslands rekur skjalasafn, bókasafn og myntsafn í því skyni að safna, skrá og varðveita heimildir, miðla upplýsingum og veita fræðslu. Starfsemin fer fram í aðalbyggingu við Kalkofnsveg 1 og í Einholti 4. Í aðalbyggingu er handbókasafn, skjalastjórn og skjalaþjónustu. Myntsýning hefur verið tekin niður vegna framkvæmda. Í Einholti 4 er umsýsla og varðveisla rita, muna og eldri skjala ásamt bókbandi.
Sýna allt
Bókasafn
Bókasafn Seðlabanka Íslands gegnir tvíþættu hlutverki. Annars vegar er það varðveislusafn efnis er varðar efnahagssögu þjóðarinnar og hins vegar faglegt bókasafn til daglegrar notkunar í starfsemi bankans.
Safnkosturinn er að mestu rit á sviði efnahags- og bankamála, myntfræða, innlendra atvinnuvega, samfélagsmálefna, sögu Íslands og landgæða. Efni safnsins er skráð í bókasafnskerfið Gegni og aðgengilegt á slóðinni www.gegnir.is
Safnið hefur aðsetur á tveimur stöðum. Meginhluti safnkostsins er í Einholti 4, en í aðalbyggingu bankans, Kalkofnsvegi 1, er handbókasafn, ný erlend rit og nýjasta tímarita- og skýrsluefni.
Þjónusta safnsins er umfram allt miðuð við þarfir Seðlabankans. Þjónusta við aðra er þó fúslega veitt eftir því sem aðstæður leyfa og tilefni er til hverju sinni.Netföng:
bokasafn@sedlabanki.is
safnadeild@sedlabanki.isSkjalasafn
Skjalasafn Seðlabanka Íslands starfar í samræmi við lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn. Skjalasafnið tilheyrir innri upplýsingaþjónustu á sviði rekstrar- og starfsmannamála og er til húsa í aðalbyggingu bankans, Kalkofnsvegi 1, og í Einholti 4. Skjöl bankans ná aftur til stofnunar Seðlabankans árið 1961. Fyrstu 20 árin stóðu Seðlabankinn og Landsbanki Íslands saman að rekstri skjalasafns þar sem varðveitt voru gögn bankanna beggja allt frá stofnun þeirra. Árið 1981 var gerður samningur um að bókhaldsbækur og skjöl Landsbankans frá fyrri tíð skyldi varðveita með skjalasafni Seðlabankans. Öll eldri gögn bankans og fram til ársins 2002 eru varðveitt í skjalasafni í Einholti 4, en nýrri skjöl í skjalasafni á Kalkofnsvegi 1. Frá árinu 2002 hafa gögn bankans verið skráð með kerfisbundnum hætti í rafrænt skjalastjórnunarkerfi.
Önnur starfsemi innri upplýsingaþjónustu, hvað varðar skjalamál, er eftirfarandi:- Mótun, viðhald og eftirfylgni við skjalastefnu bankans
- Mótun og viðhald málalykils og aðgangsstýringar skjala
- Skjalastjórn og stýring rafræns skjalastjórnunarkerfis
- Gerð skjalavistunar- og grisjunaráætlunar og eftirfylgni
- Ráðgjöf og stuðningur við starfsmenn varðandi skjalamál
Netfang:
skjalasafn@sedlabanki.isMyntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns
Stofninn í myntsafninu er íslensk mynt og seðlar, erlendir peningar frá fyrri öldum, einkum þeir sem koma við íslenskar heimildir, og auk þess yngri gjaldmiðill helstu viðskiptaþjóða Íslendinga. Í safninu eru nú hátt í tuttugu þúsund myntir og nálægt fimm þúsund seðlagerðir. Þá er í safninu allgóður handbókakostur um myntfræði.
Samningur um rekstur safnsins
Seðlabanki og Þjóðminjasafn Íslands hafa með sér samstarf um rekstur myntsafnsins. Samningur um það efni var staðfestur af menntamálaráðherra 28. janúar 1985. Þar er kveðið á um að myntfræðilegt efni stofnananna beggja skuli haft í einu safni sem bankinn rekur, þó þannig að jarðfundnar myntir og sjóðir séu eftir sem áður í Þjóðminjasafni.
Sýning
Yfirlitssýningu á efni úr myntsafninu var komið fyrir á fyrstu hæð í húsnæði Seðlabankans að Kalkofnsvegi 1. Sýningin hefur verið tekin niður vegna framkvæmda.
Útgáfa
Safnið hefur gefið út eftirtalin rit:
- Alþingishátíðarpeningarnir. Kristján Eldjárn tók saman. 1986.
- Gjaldmiðill á Íslandi. Ólafur Pálmason og Sigurður Líndal tóku saman. 1994.
- Opinber gjaldmiðill í 220 ár. Anton Holt og Freyr Jóhannesson tóku saman. 1997.
- Opinber gjaldmiðill á Íslandi - 2. útg. Október 2002.
Ath.: Á bls. 66-68 í ritinu er nefnd samstæðan Íslensk mynt árið 2001. Þar á að standa Íslensk mynt árið 2000.
Netfang:
safnadeild@sedlabanki.is