Skilaáætlanir
Beiting skilaúrræða og mat á skilabærni
Það leiðir af lögum um skilameðferð, markmiðum þeirra og skilyrðum fyrir skilameðferð, að ekki verður gripið til skilaúrræða vegna starfsemi allra fjármálafyrirtækja hér á landi. Sé litið til framkvæmdar annars staðar innan EES verður skilameðferð aðeins beitt vegna sumra fyrirtækja. Skilavaldið semur skilaáætlanir fyrir fjármálafyrirtæki ef framangreind skilyrði eru uppfyllt (sjá síðuna Skilameðferð). Almennt má því segja að áhrifameiri og kerfislega mikilvægari fjármálafyrirtæki fari fremur leið skilameðferðar, en áhrifaminni fyrirtæki fari í hefðbundna slitameðferð. Áætlanir verða ekki aðgengilegar viðkomandi fjármálafyrirtækjum en við gerð þeirra er byggt á upplýsingum sem skilavaldið aflar frá viðkomandi fyrirtækjum og fjármálaeftirliti, meðal annars endurbótaáætlunum.
Gerð skilaáætlana felur í sér nokkur þrep sem á endanum leiða fram lágmarkskröfur um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar eða svonefndar MREL-kröfur (MREL – Minimum Requirements for Own Funds and Eligible Liabilities). Umrædd skref eru: 1) Stefnumiðuð viðskiptagreining, 2) Æskilegasta skilastefna (e. preferred resolution strategy) og 3) Mat á skilabærni (e. resolvability). Fjórða og síðasta skrefið við gerð skilaáætlana eru að ákvarða sértækar MREL-kröfur fyrir hvert og eitt fyrirtæki.
Stefnumiðuð viðskiptagreining felur m.a. í sér yfirsýn yfir kjarnastarfssvið (e. core business lines) og nauðsynlega starfsemi (e. critical functions) fjármálafyrirtækja á samstæðu- og einingargrunni. Út frá viðskiptagreiningunni, þar sem m.a. er höfð hliðsjón af endurbótaáætlunum fjármálafyrirtækja, ákvarðar skilavaldið æskilegustu skilastefnu. Æskilegasta skilastefna felur í sér þær aðgerðir sem skilavaldið mun grípa til ef sú staða kemur upp að skilyrði skilameðferðar gilda um tiltekið félag. Í því felst m.a. að velja ákjósanlegustu skilameðferð fyrir fjármálafyrirtæki, þ.e. að þeim skilaúrræðum verður beitt sem best hentar starfsemi viðkomandi fyrirtækis. Þar koma öll skilaúrræði til greina: 1) að beita eftirgjöf (e. bail-in tool), 2) að stofna nýtt brúarfyrirtæki (e. bridge institution tool) sem tekur við nauðsynlegri starfsemi, 3) að selja eignir eða rekstrareiningar fyrirtækisins í opnu söluferli (e. sale of business tool) eða 4) að fela eignaumsýslufélagi að vinna úr eignum eða rekstri viðkomandi fjármálafyrirtækis (e. asset separation tool). Skilavaldið getur notað fjármuni úr svonefndum skilasjóði (e. resolution fund) til að standa straum af kostnaði vegna skilameðferðar og fjármagna skilaúrræði sem tekin er ákvörðun um að beita.
Við gerð skilaáætlunar fyrirtækis er að lokum lagt mat á skilabærni þess. Í því felst að ganga úr skugga um að ekki séu til staðar neinir annmarkar m.t.t. skilameðferðar, þ.e. að hægt verði að taka ákvarðanir varðandi beitingu skilaúrræða með skjótum og hnökralausum hætti. Séu hins vegar annmarkar til staðar, sem viðkomandi fyrirtæki er ekki mögulegt að ráða bót á, er skilavaldinu skylt að krefja viðkomandi fyrirtæki um að grípa til viðeigandi aðgerða, þ.m.t. að:
- Fyrirtækið endurskoði samninga um fjárstuðning innan samstæðu samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki eða fari yfir hvort gera skuli slíka samninga.
- Fyrirtækið geri þjónustusamninga við aðila innan eða utan samstæðunnar til að tryggja áframhaldandi nauðsynlega starfsemi.
- Fyrirtækið takmarki safn áhættuskuldbindinga, bæði gagnvart einstökum aðilum og eins að samtölu.
- Fyrirtækið veiti tíðari eða reglulegar viðbótarupplýsingar um atriði sem varða skilameðferð.
- Fyrirtækið selji tilteknar eignir. Fyrirtækið dragi úr eða hætti tiltekinni starfsemi eða hætti við fyrirhugaða starfsemi.
Fréttir sem birtar hafa verið um skilaáætlanir:
- Seðlabanki Íslands samþykkir skilaáætlanir fyrir kerfislega mikilvæga banka. Birt 26.04.2022
- Seðlabanki Íslands hefur uppfært skilaáætlanir fyrir kerfislega mikilvæga banka. Birt 3.10.2022
- Seðlabanki Íslands hefur uppfært skilaáætlanir fyrir kerfislega mikilvæga banka. Birt 19.10.2023
- Skilaáætlanir fyrir sparisjóði samþykktar. Birt 5.1.2024