logo-for-printing

Netöryggisprófanir

TIBER-IS

TIBER-IS er umgjörð um netárásaprófanir fyrir stofnanir og fyrirtæki sem eru mikilvæg fyrir íslenskt fjármálakerfi. Umgjörðinni er ætlað að auka skilning þátttakenda í prófunum á getu til að verjast netárásum og þannig efla viðnámsþrótt þeirra. Þannig má efla viðnámsþrótt fjármálakerfisins í heild. TIBER-IS er byggt á TIBER-EU umgjörð Evrópska seðlabankans, ECB.

TIBER-EU er umgjörð um netárásaprófanir sem er þróuð af Evrópska seðlabankanum til að unnt sé að framkvæma netárásaprófanir á staðlaðan hátt og þannig prófa viðnámsþrótt gegn netógnum hjá stofnunum sem eru mikilvægar fyrir fjármálakerfið. Prófunin (þekkt sem red team testing), felst í vel undirbúinni hermun netárásar á starfsfólk, ferla og tækniumhverfi stofnunar. Tilgangurinn er ekki að kanna hvort stofnun hafi staðist prófið, heldur að greina veikleika í vörnum og þannig efla viðnámsþrótt stofnunarinnar. Áherslan er því á að þjálfa starfsfólk stofnunarinnar í netvörnum.

Helstu áherslur í TIBER-EU eru:

  • Efla viðnámsþrótt fjármálamarkaðarins gegn netógnum
  • Staðla og samræma netárásapróf á EES-svæðinu
  • Veita stuðning fyrir próf stofnana sem starfa í fleiri en einu landi

Í febrúar 2023 ákvað Seðlabanki Íslands að innleiða TIBER-EU og eru hér birtar leiðbeiningar um íslensku umgjörðina, TIBER-IS. Seðlabankinn hefur kynnt þessa umgjörð fyrir stofnunum sem taka þátt á samstarfsvettvangi um rekstraröryggi fjármálainnviða, SURF.
TIBER-IS er ekki takmarkað við fjármálastofnanir. Umgjörðina má nota til netárásaprófana á öllum sviðum samfélagsins.

Varðandi frekari upplýsingar, hafið samband við TIBER-IS@sedlabanki.is

Tengt efni:

Lýsing á TIBER-EU (á ensku)
TIBER-IS innleiðingarskjal (á ensku)