logo-for-printing

11. desember 1998

Bandaríska matsfyrirtækið Moody's staðfestir lánshæfiseinkunn fyrir Ísland

Í frétt bandaríska matsfyrirtækisins Moody's um Ísland, sem gefin var út í New York í dag, kemur fram það álit fyrirtækisins að há lánshæfiseinkunn sem Ísland fær, eða Aa3/Aaa, endurspegli bætt jafnvægi og aukna breidd í þjóðarbúskapnum undanfarin ár. Þættir sem stuðla að hárri einkunn að dómi fyrirtækisins eru meðal annars góð og jöfn lífskjör, stöðugleiki í stjórnmálum, styrkir innviðir og gjöfular náttúruauðlindir. Víðtækar umbætur hafi borið ávöxt í öflugum hagvexti, hækkandi tekjum, hraðri fjölgun nýrra starfa, bættri samkeppnisstöðu við útlönd og miklum erlendum fjárfestingum. Atvinnuleysi sé orðið óverulegt en samt hafi verðbólga haldist lág. Fjárhagur hins opinbera batni jafnt og þétt. Búast megi við enn frekari lækkun á skuldum hins opinbera, sem teljist vera hóflegar nú þegar. Horfur séu á stöðugu lánshæfi ríkisins en einkunnir þess eru Aa3 fyrir skuldbindingar í erlendri mynt og Aaa fyrir skuldbindingar í krónum. 

Moody's tekur jafnframt fram að sífellt skilvirkari fiskveiðistjórn sé afar mikilvæg fyrir lánshæfi landsins í ljósi þýðingar atvinnugreinarinnar fyrir þjóðarbúskapinn og hlut hennar í gjaldeyrisöflun. Þá sé líka traustvekjandi að hlutur sjávarútvegs í efnahagslífinu minnki stöðugt, einkum vegna umfangsmikilla erlendra fjárfestingarverkefna. Enda þótt þessar framkvæmdir hafi tímabundið leitt til mikils halla á vöruskiptum og viðskiptum við útlönd og hækkunar á erlendum skuldahlutföllum sé búist við að þessi staða batni jafnt og þétt. Þegar nýjar verksmiðjur hafi náð fullri útflutningsgetu dragi úr þörf á innflutningi vegna þessara verkefna og útflutningur vaxi. 

Moody's varar við því að umfangsmiklar stóriðjuframkvæmdir samfara miklum launahækkunum geti leitt til aukinnar eftirspurnar á komandi árum. Moody's bendir á að vönduð hagstjórn sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir ofþenslu í þjóðarbúskapnum, of mikið innstreymi fjármagns og söfnun erlendra skulda af hálfu einkaaðila. Þetta eigi sérstaklega við í ljósi þess hvað umfang þjóðarbúskaparins er lítið og hann opinn út á við.

Nánari upplýsingar veita Birgir Ísl. Gunnarsson, formaður bankastjórnar, og Ólafur Ísleifsson, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs bankans, í síma 569 9600. 

Nr. 73/1998
11. desember 1998

 

Til baka