Verðbólguspá Seðlabanka Íslands
Seðlabanki Íslands hefur endurmetið horfur um verðbólgu á þessu ári í ljósi þróunar vísitölu neysluverðs og undirliggjandi stærða á síðustu mánuðum. Auk þess spáir bankinn nú framvindu verðlags á næsta ári. Seðlabankinn spáir nú 3,3% verðbólgu milli ársmeðaltala 1998 og 1999 og 4,6% hækkun frá upphafi til loka árs 1999. Þá spáir bankinn 4,1% verðbólgu milli áranna 1999 og 2000 en 3,7% verðbólgu frá upphafi til loka næsta árs miðað við óbreytt gengi frá því sem það er í dag.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,7% á milli annars og þriðja ársfjórðungs 1999 sem samsvarar 6,8% verðbólgu á heilu ári. Spá Seðlabankans frá því í júlí sl. gerði ráð fyrir 1,3% hækkun sem samsvarar 5,3% verðbólgu á heilu ári. Frávikið er innan tölfræðilegra skekkjumarka. Frávikið stafaði af því að olíu- og bensínverð annars vegar og húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hins vegar hækkaði mun meira en gert var ráð fyrir í júlí.
Í endurskoðaðri spá Seðlabankans er gert ráð fyrir að verðlag í ár verði að meðaltali 3,3% hærra en í fyrra og að það hækki um 4,6% frá ársbyrjun til loka ársins. Í júlí sl. spáði bankinn að samsvarandi hækkanir yrðu 3% og 4%. Meginástæða þess að nú er spáð meiri verðbólgu en í júlí er meiri hækkun verðlags á þriðja ársfjórðungi en búist var við. Hins vegar er gert ráð fyrir litlum sem engum verðhækkunum það sem eftir er ársins. Það byggir á venjubundinni árstíðasveiflu verðlags, lækkun bensíngjalds sem þegar er orðin og hækkun á gengi íslensku krónunnar að undanförnu. Þá er ekki reiknað með umtalsverðri hækkun á raunverði húsnæðis það sem eftir lifir ársins né að bensínverð erlendis gefi tilefni til hækkunar á innlendum markaði. Bregðist þessar forsendur verður verðbólga meiri en hér er spáð.
Seðlabankinn hefur einnig metið verðlagshorfur næsta árs og spáir 4,1% verðbólgu á milli ársmeðaltala 1999 og 2000 en 3,7% verðbólgu frá upphafi til loka árs 2000. Þessi spá byggir á því að gengi krónunnar haldist óbreytt frá því sem nú er og að meðalhækkun launa á almennum vinnumarkaði að meðtöldu launaskriði og þegar umsömdum hækkunum verði um 6½% á milli áranna 1999 og 2000. Reiknað er með að launaskrið minnki úr 2% í ár í 1½% á næsta ári, m.a. vegna þess að vísbendingar eru um að afkoma útflutnings- og samkeppnisgreina hafi versnað. Reiknað er með 2% framleiðniaukningu á næsta ári. Forsendur um hækkun innflutningsverðs á þessu ári hafa verið hækkaðar frá því í júlí úr 2½% í 3½% og hefur það áhrif á spána fyrir næsta ár. Á næsta ári er reiknað með 1½% hækkun innflutningsverðs, m.a. á þeirri forsendu að verð olíu og bensíns á alþjóðlegum mörkuðum hækki ekki að ráði frá því sem þegar er orðið. Að lokum er gert ráð fyrir að raunverð húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hækki nokkuð á fyrstu mánuðum næsta árs. Almenn meginforsenda þessarar spár er hins vegar sú að nokkuð hægi á hagvexti og að mikil ofþensla eftirspurnar að undanförnu hjaðni þegar líður á næsta ár.
Verðbólgan sem hér er spáð er mun meiri en í helstu viðskiptalöndum Íslendinga og meiri en hægt er að una. Verði launahækkanir meiri en hér er gert ráð fyrir eða takist illa til í hagstjórn næsta árs gæti verðbólga orðið enn meiri. Skili aðhald í peningamálum sér í hærra gengi og/eða verði launahækkanir minni en gert er ráð fyrir í forsendum spárinnar verður verðbólga minni en hér er spáð. Til dæmis myndi 1½% hækkun gengis krónunnar á næstu mánuðum ásamt því að laun hækkuðu 1% minna á næsta ári en hér er gert ráð fyrir leiða til þess að verðbólga yrði rúmlega 2½% frá upphafi til loka næsta árs í stað rúmlega 3½%. Aukning kaupmáttar launa yrði hins vegar nánast hin sama í báðum tilfellum.
Seðlabankinn hefur einnig lagt mat á þróun raungengis krónunnar m.v. þá verðbólguspá sem hér er birt (sjá meðfylgjandi töflu). Raungengi á mælikvarða launa stendur nánast í stað á þessu ári frá því í fyrra en hækkar um nær 2% á mælikvarða verðlags. Á næsta ári hækkar það um rúmlega 4% á báða kvarðana.
Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson aðalhagfræðingur bankans, í síma 569 9600.
Nr. 68/1999
25. október 1999