Verðbólguspá Seðlabanka Íslands
Seðlabanki Íslands hefur gert nýja verðbólguspá fyrir árið 2000 í ljósi nýjustu mælinga á vísitölu neysluverðs og upplýsinga um þróun undirliggjandi stærða. Seðlabankinn spáir nú 5% verðbólgu á milli ársmeðaltala 1999 og 2000 og 3,8% verðbólgu frá upphafi til loka árs 2000.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,4% frá þriðja til fjórða ársfjórðungs 1999 sem samsvarar 5,9% verðbólgu á heilu ári. Spá Seðlabankans í október sl. gerði ráð fyrir 1% hækkun. Frávikið, sem er innan tölfræðilegra skekkjumarka, stafaði að hluta af áframhaldandi hækkun bensínverðs og frekari hækkun á verði íbúðarhúsnæðis á síðustu mánuðum ársins.
Verðlag hækkaði um 3,4% frá ársmeðaltali 1998 til 1999 og um 5,8% frá upphafi til loka árs 1999. Meiri verðbólga hefur ekki mælst á milli ára hér á landi síðan 1993 og frá upphafi til loka árs (janúar til janúar) síðan 1991. Spá bankans í október sl. gerði ráð fyrir 3,3% hækkun á milli ára og 4,6% frá upphafi til loka ársins.
Ný spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að verðbólga verði 5% á milli ársmeðaltala 1999 og 2000 og 3,8% frá upphafi til loka árs 2000. Gert er ráð fyrir að nokkuð dragi úr 12 mánaða hækkun verðlags síðar á árinu þegar áhrif verðhækkana fyrra árs og launahækkana sem gert er ráð fyrir á fyrri hluta þessa árs taka að dvína. Bankinn spáir nú nokkuð meiri verðbólgu en í október sl. en þá var gert ráð fyrir að hún yrði 4,1% á milli áranna 1999 og 2000 og 3,7% frá upphafi til loka ársins. Mestu veldur meiri hækkun vísitölu neysluverðs á síðasta fjórðungi 1999 en gert var ráð fyrir í október. Einnig er nú spáð meiri verðbólgu á fyrsta fjórðungi yfirstandandi árs, aðallega sökum meiri verðhækkunar á opinberri þjónustu en fyrirséð var í október. Auk þess er gert ráð fyrir að íbúðarhúsnæði hækki enn umfram almennar verðlagshækkanir. Á móti kemur að gengi krónunnar er nú 0,7% sterkara en þegar spá bankans var gerð í október síðastliðnum.
Óvissa ríkir um niðurstöðu kjaraviðræðna en í forsendum hinnar nýju spár er gert ráð fyrir að launakostnaður hækki um 6½% yfir árið 2000. Er þá talin með samningsbundin hækkun launa ýmissa hópa nú í janúar og launaskrið á árinu. Gert er ráð fyrir 2% framleiðniaukningu á árinu 2000 í framhaldi af 2½% aukningu á síðasta ári. Reiknað er með að innflutningsverðlag í erlendri mynt hækki um 2% yfir árið og skv. venju er reiknað með óbreyttu gengi frá útgáfudegi spárinnar.
Verði samið um meiri launahækkanir en gert er ráð fyrir í spánni verður
verðbólgan meiri. Munar þar ekki aðeins um bein áhrif launakostnaðar á verðlag
heldur eykst einnig hætta á að þrýstingur myndist á gengi krónunnar. Þar að auki
er hætta á að miklar verðbólguvæntingar festist í sessi.
Sem dæmi
má nefna að hækki launakostnaður samtals um 9% yfir árið, að óbreyttu gengi, má
búast við að verðbólga verði u.þ.b. 6% milli ára og rúmlega 5% frá upphafi til
loka ársins. Veikist krónan hins vegar um 4% í kjölfarið gæti verðbólgan orðið
rúmlega 6½%. Verði launabreytingar hóflegri og styrkist gengi krónunnar verður
verðbólga að sama skapi minni en hér er gert ráð fyrir. Þannig má ætla að 5%
hækkun launakostnaðar á árinu og áframhaldandi styrking krónunnar í þessum og
næsta mánuði hafi í för með sér rúmlega 4% verðbólgu milli ára og nærri 2½% yfir
árið. Slík niðurstaða mundi skila álíka kaupmáttaraukningu yfir árið og spá
bankans gerir ráð fyrir.
Að lokum má geta þess að þetta er síðasta verðbólguspá Seðlabankans sem birt er í sérstakri frétt. Framvegis verða verðbólguspárnar birtar í ársfjórðungsriti bankans, Peningamálum, fyrst í maí nk.
Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson aðalhagfræðingur bankans í síma 569 9600
Nr. 3/2000
24. janúar 2000