Seðlabanki Íslands hækkar vexti
Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka stýrivexti bankans, þ.e. ávöxtun í endurhverfum viðskiptum hans við lánastofnanir, um 0,8 prósentustig á næsta uppboði sem fram fer þriðjudaginn 7. nóvember n.k. Ávöxtun í tilboðum bankans á Verðbréfaþingi Íslands og vextir á viðskiptareikningum, daglánum og bindireikningum lánastofnana í Seðlabankanum hækka um 0,8 prósentustig á morgun, miðvikudaginn 1. nóvember.
Frá því að Seðlabanki Íslands hækkaði vexti í júní sl. hafa horfur um verðbólgu á næsta ári versnað vegna lækkunar á gengi krónunnar og mikillar spennu á innlendum vöru- og vinnumarkaði. Þá er lítið lát á útlánaaukningu bankanna. Seðlabankar ýmissa mikilvægra viðskiptalanda hafa hækkað vexti sína að undanförnu. Frá því um mitt árið og þar til nú hefur því munur innlendra og erlendra skammtímavaxta minnkað um 0,6 til 0,7 prósentustig. Þessi þróun hefur veikt gengi krónunnar. Seðlabankinn telur því óhjákvæmilegt að herða að í peningamálum í því skyni að ná verðbólgu niður á viðunandi stig. Jafnframt leitast bankinn með þessu við að stuðla að minni lánsfjár-eftirspurn.
Nánari upplýsingar veitir Birgir Ísl. Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.
Nr. 25/2000
31. október 2000