Greiðslujöfnuður við útlönd 2000
Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands var viðskiptahallinn 68,9 milljarðar króna á árinu 2000 samanborið við 43,6 milljarða króna halla árið áður. Meiri viðskiptahalla má að stærstum hluta rekja til óhagstæðari vöruviðskipta við útlönd Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands en jafnframt til lakari þjónustujafnaðar og aukinna vaxtagreiðslna af erlendum skuldum. Í heild var fjármagnsjöfnuður við útlönd jákvæður um 66,1 milljarð króna. Fjármagnsinnstreymi stafar að mestu leyti af erlendum lántökum sem námu ríflega 140 milljörðum króna, en fjárinnstreymi vegna beinna fjárfestinga erlendra aðila á Íslandi nam 10 milljörðum króna. Gjaldeyrisforði Seðlabankans minnkaði um 5,3 milljarða króna á árinu. Fjárútstreymi jókst mikið á árinu 2000 vegna fjárfestinga í erlendum verðbréfum og annarrar eignamyndunar í útlöndum, aðallega innstæðna og útlána lánastofnana erlendis. Bein fjárfesting Íslendinga erlendis nam 25,4 milljörðum króna á árinu 2000.
Tafla yfir greiðslujöfnuð við útlönd í milljörðum króna
Hrein erlend staða þjóðarbúsins var neikvæð um 452 milljarða króna í árslok 2000 samanborið við 311 milljarða króna 1999. Erlendar eignir námu um 311 milljörðum króna í árslok 2000. Þar af nam erlend verðbréfaeign 186 milljörðum króna og gjaldeyrisforði Seðlabankans 34 milljörðum króna. Erlendar skuldir þjóðarinnar námu 763 milljörðum króna og er það í fyrsta sinn sem þær eru hærri en sem nemur vergri landsframleiðslu ársins. Breyting á hreinni skuldastöðu endurspeglar viðskiptahallann en jafnframt stuðlaði gengislækkun íslensku krónunnar og lækkun á markaðsvirði erlendrar verðbréfaeignar á árinu 2000 að hækkun hreinu skuldastöðunnar. Þess ber að geta að ekki er fullt samræmi í gagnaöflun beinna fjárfestinga þar sem fjárflæði (fjárfesting) er mælt á markaðsvirði en fjárstofninn er á bókfærður virði fyrirtækja á hverjum tíma og hefur munurinn vaxið á síðustu árum.
Tafla yfir greiðslujöfnuð við útlönd í milljónum króna
Tafla yfir erlenda stöðu þjóðarbúsins
Nánari upplýsingar veita Birgir Ísl. Gunnarsson formaður bankastjórnar og Jakob Gunnarsson deildarstjóri á tölfræðisviði Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.
Nr. 12/2001
9. mars 2001