Margvíslegar breytingar með nýjum vaxtalögum
Ný lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 taka gildi frá og með 1. júlí
næstkomandi og leysa þau af hólmi lög nr. 25/1987. Margvíslegar breytingar munu
eiga sér stað við gildistöku hinna nýju laga, meðal annars að því er varðar
dráttarvexti og birtingarskyldu Seðlabanka Íslands á vöxtum. Hér skal vikið að
helstu breytingum varðandi vexti.
Lögin fela í sér nokkurt samningsfrelsi
varðandi dráttarvexti. Í stað þess að dráttarvextir í krónum séu einhliða
ákvarðaðir af Seðlabankanum mun aðilum verða heimilt að semja um dráttarvexti,
annað hvort sem fast álag ofan á tiltekinn grunn dráttarvaxta eða sem fasta
vexti. Sé ekki samið um dráttarvexti eða vanefndaálag gilda þeir dráttarvextir
sem Seðlabankinn ákveður og birtir. Gilda þeir í sex mánuði í senn, þ.e. frá 1.
janúar og 1. júlí ár hvert á grundvelli 6. gr. laganna.
Við gildistöku nýju
vaxtalaganna hættir Seðlabankinn að auglýsa mánaðarlega öll almenn vaxtakjör
banka og sparisjóða ásamt vegnum meðaltölum vaxta. Upplýsingar um meðalvexti og
hæstu vexti munu því ekki birtast með formlegum hætti eftir gildistöku laganna.
Því er mikilvægt að í nýjum lánssamningum verði ekki lengur vitnað í hugtök eins
og meðalvexti skuldabréfalána, meðalávöxtun útlána eða hæstu lögleyfðu vexti. Í
stað þess mun Seðlabanki Íslands birta vexti sem taka mið af lægstu vöxtum nýrra
útlána lánastofnana. Vilji aðilar hafa breytilega vexti í lánssamningi geta þeir
miðað við þessa vexti og er ekkert því til fyrirstöðu að í nýjum lánssamningum
sé samið um tiltekin frávik frá auglýstum vöxtum eftir aðstæðum hverju sinni.
Með þessum hætti eru aðilar hvattir til að semja um ákveðna vexti sín á milli en
nota ekki úreltar, eldri viðmiðanir, svo sem meðalvexti eða hæstu vexti þar sem
slíkt getur leitt til vandkvæða við innheimtu skulda.
Vegna lánssamninga sem
gerðir hafa verið fyrir gildistöku laganna og hafa að geyma ákvæði um breytilega
vexti í samræmi við meðalvexti eða hæstu vexti gildir bráðabirgðaákvæði sem
tryggir að unnt verður að finna hvaða vexti skuli nota.
Meðfylgjandi er
tilkynning nr. 1/2001 um dráttarvexti og vexti af peningakröfum skv. 2. mgr.
10.gr., sbr. 4., 6. og 8. gr. og bráðabirgðaákvæði III. í lögum um vexti og
verðtryggingu nr. 38/2001, sem birtist í Lögbirtingablaðinu 22. júní 2001 með
gildistöku 1. júlí n.k.
Nr. 1/2001
Tilkynning
um dráttarvexti og vexti af peningakröfum skv. 2. mgr.
10.gr., sbr. 4., 6. og 8. gr. og bráðabirgðaákvæði III. í lögum um vexti og
verðtryggingu nr. 38/2001.
Fyrsti kafli hér að neðan um dráttarvexti er
birtur samkvæmt 6. gr. laganna og gilda dráttarvextir sem þar eru sýndir í sex
mánuði í senn frá 1. janúar og 1. júlí ár hvert. Annar kafli um almenna vexti er
birtur samkvæmt 4. og 8. gr. og þriðji kafli samkvæmt bráðabirgðaákvæði III. í
lögunum og gilda vextir samkvæmt II. og III. kafla næsta almanaksmánuðinn eða
uns næsta tilkynning birtist.
Vextir sem breytast eru merktir með stjörnu
(*). Innan sviga eru sýndir vextir fyrir breytingu.
I. Dráttarvextir af peningakröfum í krónum
f.o.m. 1. júlí 2001
1. | Grunnur dráttarvaxta 1 | 10,9% * ( .. ) | |
2. | Vanefndaálag 2 | 12,6% * ( .. ) | |
3. | Dráttarvextir 3 | 23,5% |
II. Almennir vextir
1. | Lægstu vextir óverðtryggðra lána 4 | 14,5% * ( .. ) |
2. | Lægstu vextir verðtryggðra lána 4 | 7,8% * ( .. ) |
3. | Vextir af skaðabótakröfum 5 | 9,5% * (1,6%) |
III. Dráttarvextir af peningakröfum í erlendri mynt 6
1. | Bandaríkjadollurum | 7,5% |
2. | Sterlingspundum | 8,5% * ( 8,4% ) |
3. | Dönskum krónum | 8,0% * ( 8,2% ) |
4. | Norskum krónum | 10,5% * (10,7%) |
5. | Sænskum krónum | 7,0% * ( 6,8% ) |
6. | Svissneskum frönkum | 6,5% * ( 6,3% ) |
7. | Japönskum jenum | 5,0% * ( 5,1% ) |
8. | Evrum 7 | 7,5% * ( 7,7% ) |
Um leið og tilkynning þessi öðlast gildi 1. júlí 2001, falla úr gildi tilkynningar nr. A 01.06 dags. 21. maí 2001 um almenn vaxtakjör viðskiptabanka og sparisjóða og vegið meðaltal þeirra samkvæmt 2. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 25 frá 27. mars 1987 og nr. B 01.06 dags. 21. maí 2001 um dráttarvexti samkvæmt 10. og 11. gr. sömu laga.
Reykjavík, 18. júní 2001.
SEÐLABANKI ÍSLANDS
1 Grunnur dráttarvaxta eru gildandi vextir algengustu skammtímalána
Seðlabanka Íslands til lánastofnana, nú ávöxtun í endurhverfum verðbréfakaupum
Seðlabankans.
2 Vanefndaálag er ellefu hundraðshlutar, nema um annað sé
samið skv. 2. mgr. 6. gr. laganna. Seðlabankanum er þó heimilt að ákveða annað
vanefndaálag að lágmarki sjö hundraðshlutar og að hámarki fimmtán
hundraðshlutar.
3 Dráttarvextir eru samtala grunns dráttarvaxta og
vanefndaálags. Seðlabankinn skal birta dráttarvexti eigi skemur en viku fyrir
gildistökudaga dráttarvaxta sem eru 1. janúar og 1. júlí ár hvert.
4 Almenna
vexti skv. 3. gr. laganna skal því aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af
samningi, venju eða lögum. Þegar hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að
öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem
Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum
óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. laganna. Þar sem
um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem
Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum
útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. laganna.
Í bráðabirgðaákvæði
I. í lögum nr. 38/2001 segir: "Nú segir í lánssamningi í íslenskum krónum,
gerðum fyrir gildistöku laga þessara, að vextir fram að gjalddaga skuli vera
breytilegir í samræmi við vegið meðaltal ársávöxtunar á nýjum almennum útlánum
hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum, meðalútlánsvexti viðskiptabanka og
sparisjóða eða meðalútlánsvexti sem Seðlabanki Íslands birtir, eða vísað er með
öðrum almennum hætti til vaxta á markaði, og skulu þá vextir af þessum
peningakröfum, eftir gildistöku laganna, vera jafnháir vöxtum skv. 1. málsl. 4.
gr. að viðbættum 3,5% þegar um óverðtryggða peningakröfu er að ræða og jafnháir
vöxtum skv. 2. málsl. 4. gr. að viðbættum 2,5% þegar um verðtryggða peningakröfu
er að ræða.
Nú segir í lánssamningi í íslenskum krónum, gerðum fyrir
gildistöku laga þessara, að vextir fram að gjalddaga skuli vera breytilegir í
samræmi við hæstu lögleyfðu vexti á hverjum tíma, hæstu vexti á markaðnum eða
vísað er með öðrum almennum hætti til hæstu vaxta á markaði og skulu þá vextir
af þessum peningakröfum eftir gildistöku laganna vera jafnháir vöxtum skv. 1.
málsl. 4. gr. að viðbættum 4,5%, þegar um óverðtryggða peningakröfu er að ræða
og jafnháir vöxtum skv. 2. málsl. 4. gr. að viðbættum 3,5% þegar um verðtryggða
peningakröfu er að ræða."
5 Vextir af kröfum um skaðabætur, sbr. 1. mgr. 8.
gr. laganna skulu á hverjum tíma vera jafnháir tveimur þriðju hlutum vaxta sem
Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 1. málslið 4. gr. laganna.
6 Í
bráðabirgðaákvæði III í lögum nr. 38/2001 segir: "Nú segir í lánssamningi í
erlendum gjaldmiðli, gerðum fyrir gildistöku laga þessara, að við vanskil
reiknist hæstu lögleyfðu dráttarvextir eins og þeir eru á hverjum tíma,
dráttarvextir samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands eða dráttarvextir samkvæmt
vaxtalögum, eða vísað er með öðrum hætti til dráttarvaxta sem Seðlabankinn ákvað
skv. 11. gr. laga nr. 25/1987, og skulu þá dráttarvextir þessir vera ákvarðaðir
með sama hætti næstu fimm árin eftir gildistöku laga þessara, en að þeim tíma
loknum skulu þeir vera jafnháir þeim dráttarvöxtum í hlutaðeigandi gjaldmiðli
sem síðast voru auglýstir af Seðlabankanum í Lögbirtingablaði fimm árum eftir
gildistöku laganna."
7 Sömu vextir gilda af peningakröfum í myntum
aðildarlanda myntbandalags Evrópu (EMU) og í evrum.
Nánari upplýsingar veitir Eiríkur Guðnason bankastjóri og lögfræðingar
bankans í síma 569 9600.
Nr. 26/2001
26. júní 2001