Endurskoðun á gengisskráningarvog krónunnar
Endurskoðun á
gengisskráningarvog krónunnar
Seðlabanki Íslands hefur endurskoðað
gengisskráningarvog krónunnar í ljósi
utanríkisviðskipta ársins 2000. Slík endurskoðun
fór síðast fram í júlí árið
2000. Meðfylgjandi tafla sýnir nýju vogina og breytingar
frá fyrri vog. Nýja vogin tekur gildi eftir gengisskráningu
á morgun 6. júlí 2001 og verður notuð við
útreikning gengisvísitölunnar þar til næsta
endurskoðun fer fram um svipað leyti að
ári.
Gengisskráningarvogin er endurskoðuð
árlega í ljósi samsetningar utanríkisviðskipta
árið áður. Markmiðið er að hún
endurspegli ætíð eins vel og kostur er samsetningu
utanríkisviðskipta þjóðarinnar, bæði
vöru- og þjónustuviðskipta. Áhersla er
lögð á að hér er aðeins um að ræða
tæknilega breytingu á þeirri gengisvog sem notuð er
við daglegan útreikning á gengi krónunnar og felur ekki
í sér breytingu á stefnu Seðlabankans. Helstu
breytingar frá fyrri vog eru að vægi Bandaríkjadals
eykst um 1,7% og vægi norsku krónunnar lækkar um 1,5%.
Aukið vægi Bandaríkjadals skýrist af auknu vægi
hans í þjónustuviðskiptum svo og auknu vægi
þjónustuviðskipta í utanríkisviðskiptum.
Vægi Bandaríkjadals í gengisskráningarvog
krónunnar hefur af þessum sökum aukist jafnt og
þétt á síðustu árum. Árið 1997
var það 22,4% en er í ár 27,0%. Minna vægi norsku
krónunnar skýrist að stórum hluta af minni
vöruinnflutningi frá Noregi. Þó drógust
önnur viðskipti við Noreg einnig saman á árinu
2000.
Nánari
upplýsingar veitir Arnór Sighvatsson, deildarstjóri
á hagfræðisviði Seðlabanka Íslands, í
síma 5699600.