27. ágúst 2001
Íslendingur í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Ólafur Ísleifsson, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Seðlabanka Íslands, mun taka sæti í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington DC um tveggja ára skeið frá næstu áramótum. Verður hann aðalfulltrúi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, sem saman eiga eitt sæti í framkvæmdastjórninni, og stýrir skrifstofu þeirra hjá sjóðnum.Framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er skipuð 24 fulltrúum sem ýmist eru skipaðir eða kjörnir af aðildarríkjum sjóðsins sem eru 183 að tölu. Framkvæmdastjórnin er æðsta vald í málefnum sjóðsins milli ráðherrafunda og fjallar um efnahagsmál í einstökum löndum og heimsbúskapinn. Framkvæmdastjórnin tekur ákvarðanir um mál sem snerta hið alþjóðlega fjármálakerfi og lánveitingar til einstakra aðildarríkja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Ólafur Ísleifsson hefur stýrt alþjóðasviði Seðlabankans frá 1991. Hann hefur starfað í Seðlabankanum frá 1983 með hléum meðan hann starfaði hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum 1985-87 og var efnahagsráðgjafi ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar 1987-88. Hann lauk BS-prófi í stærðfræði frá Háskóla Íslands 1978 og MSc-prófi í hagfræði frá London School of Economics 1980.
Ólafur er kvæntur og á einn son.
Nánari upplýsingar veitir Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.
Frétt Nr. 30/2001
28. ágúst 2001