Lánshæfismat íslenska ríkisins staðfest
Bandaríska matsfyrirtækið Standard & Poor's hefur staðfest óbreytt lánshæfismat fyrir Ísland. Þetta kemur fram í frétt fyrirtækisins sem gefin var út í dag, 22. október. Einkunn fyrir langtímaskuldir í erlendri mynt er A+ og eru horfur um einkunnina taldar neikvæðar en voru áður stöðugar.
Í frétt fyrirtækisins segir að breyting á horfum endurspegli hækkandi skuldahlutföll hins opinbera og aukna áhættu í fjármálakerfinu en skuldahlutföll ríkisins höfðu lækkað stöðugt frá miðjum síðasta áratug. Efnahagsuppsveiflan sem hófst árið 1996 og knúin var áfram af lánsfé er nú að hjaðna einmitt þegar ytri skilyrði hafa versnað. Hugsanlega gæti afleiðingin orðið tiltölulega lítill hagvöxtur í töluverðan tíma og áhættusamari eignir bankakerfisins. Að mati S&P eru vísbendingar um áhættu í fjármálakerfi fyrir hendi á Íslandi, svo sem mikil eftirspurn fjármögnuð af lánsfé, ör hækkun fasteignaverðs og ójafnvægi í utanríkisviðskiptum. Vegna skuldasöfnunar setti S&P Ísland á lista með fjármálakerfum sem sýna merki álags (sjá grein á vefsíðunni Ratingsdirect hjá S&P). Líkur hafa aukist á rýrnandi gæðum útlána hjá fjármálafyrirtækjum vegna horfa um minni hagvöxt og vegna versnandi skuldastöðu við útlönd.
Veikist fjármálakerfið enn frekar gæti komið til þess að íslenskar fjármálastofnanir þyrftu á auknu eigin fé að halda, hugsanlega úr ríkissjóði. Erlendar skuldir landsins eru miklar (um 280% af útflutningi árið 2001). Mikil raungengislækkun krónunnar undirstrikar áhrif erlendrar skuldsetningar fyrirtækja og banka í landinu.
Hagvöxtur hefur minnkað jafnt og þétt úr 5% árið 2000, búist er við samdrætti á næsta ári en hagvexti á ný árið 2003. Minni hagvöxtur ásamt gengislækkun krónunnar hefur þegar haft áhrif á stöðu ríkisfjármála og leitt til hækkunar ríkisskulda eftir stöðuga lækkun þeirra um tíma. Þetta er óháð öðrum breytingum sem orðið hafa í fjármálageiranum. Fjárlagafrumvarpið fyrir 2002 sem lagt var fram í byrjun október gerir ráð fyrir smávegis afgangi en er byggt á bjartsýnum forsendum um hagvöxt og tekjur. S&P telur að halli ríkissjóðs árið 2002 geti orðið um 1,8% af vergri landsframleiðslu. Verulegar skattalækkanir gætu orðið enn meiri Þrándur í Götu fyrir því að jafnvægi náist aftur í fjármálum ríkissjóðs.
Fyllri greinargerð um horfur í ríkisfjármálum og efnahagsmálum Íslands hefur verið birt á áðurnefndri Ratingsdirect heimasíðu S&P.
Nánari upplýsingar veita Birgir Ísl. Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands og Ólafur Ísleifsson framkvæmdastjóri alþjóðasviðs í síma 569-9600.
Nr. 37/2001
22. október 2001