logo-for-printing

05. september 2002

Greiðslujöfnuður og erlend staða þjóðarbúsins á fyrri helmingi ársins 2002

Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands var 3,3 milljarða króna við­skiptahalli við útlönd á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 29,8 milljarða króna halla á sama tíma í fyrra. Á föstu gengi var hallinn um 31,3 milljörðum króna minni á fyrri helmingi ársins en á sama tímabili í fyrra. Á öðrum ársfjórðungi var hallinn 0,8 milljarðar króna samanborið við 11,4 milljarða króna halla á sama tíma árið áður. Útflutn­ingur vöru og þjónustu jókst á fyrri árshelmingi um 8,5% frá sama tíma í fyrra en inn­flutningur minnkaði um 6,4% reiknað á föstu gengi. Hallinn á þáttatekjum (laun, vextir og arður af fjárfestingu) og rekstrar­framlögum nettó nam 11,9 milljörðum króna á fyrri árshelmingi 2002. Hallinn hefur minnkað frá fyrra ári vegna aukinna tekna af beinum fjárfestingum erlendis og lægri vaxtabyrði af erlendum skuldum þar sem vextir lækkuðu á erlendum lánamörkuðum.

Hreint fjárinnstreymi mældist 27,3 milljarðar króna á fyrri árshelmingi 2002. Það skýrist að stærstum hluta af erlendum lántökum og skuldabréfaútgáfu í útlöndum, en einnig mældist nokkuð innstreymi vegna kaupa erlendra aðila á verðbréfum útgefnum á Íslandi. Fjárútstreymi vegna erlendra verðbréfakaupa nam 6,8 milljörðum króna sem er nokkuð meira en í fyrra. Bein fjárfesting Íslendinga erlendis var aftur á móti minni á fyrri hluta ársins og nam 5,4 milljörðum króna. Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam 35,4 milljörðum króna í júnílok og hafði lækkað í krónum talið frá ársbyrjun vegna gengishækkunar krónunnar. Í uppgjöri greiðslujafnaðar jókst forðinn hins vegar um 3,6 milljarða króna vegna gjaldeyriskaupa bankans mælt á viðskiptagengi hvers tíma.

Erlendar skuldir þjóðarinnar námu 569 milljörðum króna umfram erlendar eignir í lok júní sl. Hrein skuldastaða við útlönd lækkaði um 20 milljarða króna á fyrri árshelmingi vegna gengishækkunar krónunnar. Staðan við útlönd hefði batnað enn meira ef markaðsvirði erlendrar verðbréfaeignar hefði ekki lækkað á sama tíma vegna verðlækkunar á erlendum hlutabréfamörkuðum.  Skekkjuliður greiðslujafnaðar er stór og neikvæður á fyrri hluta ársins, en talið er að hann stafi af vantöldu fjárútstreymi, annað hvort meiri eignaaukningu eða skulda­lækkun í útlöndum. Með­fylgjandi yfirlit sýna ítarlegri upplýsingar um greiðslu­jöfnuðinn við útlönd og er­lenda stöðu þjóðarbúsins.

Fréttin í heild ásamt töflum (pdf-skjal, 237 kb)

(Leiðrétt hefur verið ein tala, þáttatekjur og framlög, nettó, í janúar-júní 2001. Sú tala var neikvæð um 16,7 ma.kr., en ekki 9,5 ma.kr.)

Nánari upplýsingar veitir Jakob Gunnarsson deildarstjóri á tölfræðisviði Seðlabankans í síma 569-9600.

 

               30/2002
5. september 2002

Til baka