Seðlabanki Íslands lækkar vexti
Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans í
endurhverfum viðskiptum við lánastofnanir um 0,5 prósentur í 7,1% í næsta
uppboði sem haldið verður 24. september n.k. og aðra vexti bankans einnig um 0,5
prósentur frá 21. september n.k.
Þegar Seðlabanki Íslands birti nýja
verðbólguspá og mat á ástandi og horfum í efnahagsmálum 1. ágúst sl. lækkaði
hann vexti í endurhverfum viðskiptum um 0,6 prósentur. Við þá ákvörðun var höfð
hliðsjón af ört hjaðnandi verðbólgu, vaxandi slaka í hagkerfinu og auknum líkum
á að verðbólgumarkmið bankans næðist þegar á þessu ári. Jafnframt var boðað að
bankinn myndi lækka vexti sína frekar á næstunni ef þróunin staðfesti þessar
horfur. Vísitala neysluverðs lækkaði umtalsvert í ágúst. Í ágúst komu jafnframt
fram vísbendingar um að eftirspurn væri tekin að vaxa á ný eftir langvarandi
samdrátt. Vöxtur hennar virtist hins vegar mun minni en þarf til að koma í veg
fyrir frekari slaka í hagkerfinu. Í ljósi þessa lækkaði Seðlabankinn vexti sína
á ný um 0,3 prósentur 1. september sl.
Hækkun vísitölu neysluverðs í
september var við efri mörk væntinga á fjármagnsmarkaði. Verðlagsþróunin síðustu
tvo mánuði samrýmist þó mjög vel spá Seðlabankans frá því í ágúst. Nýjar tölur
benda ennfremur til þess að slaki á vinnumarkaði vaxi enn. Þá bendir margt til
þess að hagvöxtur á næsta ári verði að óbreyttu minni en Þjóðhagsstofnun spáði í
júní sl. og því muni framleiðsluslaki enn ágerast. Stafar þetta annars vegar af
því að alþjóðlegur efnahagsbati virðist ætla að verða veikari en áður var talið
og að ólíklegt er nú talið að innlend atvinnuvegafjárfesting vaxi í þeim mæli
sem spáð var. Þetta gæti þó breyst ef ákveðið verður að ráðast í nýjar stóriðju-
og virkjunarfjárfestingar.
Í þessu ljósi telur Seðlabankinn tilefni til að
lækka vexti sína nú. Ef nýjar hagstærðir komandi vikna staðfesta enn frekar
hraða hjöðnun verðbólgu í átt að verðbólgumarkmiði bankans og aukinn slaka í
hagkerfinu mun bankinn lækka vexti sína frekar.
Nánari upplýsingar veitir
Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 569
9600.
Nr. 32/2002
18. september 2002