Kaup Seðlabanka Íslands á gjaldeyri á innlendum millibankamarkaði
Í lok ágúst sl. tilkynnti Seðlabanki Íslands að hann hygðist kaupa gjaldeyri á innlendum gjaldeyrismarkaði í því skyni að styrkja gjaldeyrisstöðu sína. Bankinn myndi kaupa gjaldeyri reglulega tvisvar til þrisvar í viku, 1,5 milljónir Bandaríkjadala í hvert sinn. Jafnframt yrði bankinn reiðubúinn að kaupa gjaldeyri af viðskiptavökum á gjaldeyrismarkaði að þeirra frumkvæði og í hærri fjárhæðum.
Regluleg gjaldeyriskaup hófust 2. september sl. Í fyrstu keypti Seðlabankinn gjaldeyri á mánudögum og miðvikudögum. Frá 10. janúar hefur bankinn einnig keypt 1,5 milljón Bandaríkjadala á föstudögum. Auk þess keypti bankinn 50 milljónir Bandaríkjadala af einum viðskiptavaka um miðjan janúar. Samtals nema þessi kaup nú u.þ.b. 10 ma.kr.
Í tilkynningu Seðlabankans í ágúst sl. kom fram að stefnt væri að því að kaupa Bandaríkjadali að andvirði allt að 20 milljörðum íslenskra króna fyrir lok árs 2003. Markmið kaupanna væri ekki að hafa áhrif á gengi íslensku krónunnar heldur að efla gjaldeyrisstöðu bankans.
Innstreymi gjaldeyris hefur verið meira en séð var fyrir sl. haust. Það gefur Seðlabankanum færi á að styrkja gjaldeyrisstöðu sína hraðar en forsendur virtust til í haust. Því hefur bankastjórn ákveðið að frá og með fimmtudeginum 6. febrúar og þar til annað verður ákveðið kaupi bankinn 1,5 milljón Bandaríkjadala hvern virkan dag.
Nr. 2/2003
5. febrúar 2003