logo-for-printing

28. febrúar 2003

Breytingar á bindiskyldu lánastofnana í Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands hefur á undanförnum árum stefnt að því að búa, eftir því sem aðstæður leyfa, íslenskum lánastofnunum starfsumhverfi sem er sambærilegt því sem tíðkast í flestum Evrópuríkjum. Í því skyni hafa verið gerðar breytingar á reglum er varða tilhögun á fyrirgreiðslu bankans við lánastofnanir, skilgreiningu á bindiskyldum lánastofnunum og kröfur um uppgjörstryggingar.

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að stíga frekari skref í þessa átt með eftirtöldum breytingum á reglum um bindiskyldu íslenskra lánastofnana:

1. Frá 21. mars 2003 verða bindihlutföll, þ.e. hlutföll innláns-
    bindingar lánastofnana, sem nú eru 1,5% og 4%, lækkuð í 
    1% og 3%.
 
2. Frá 1. apríl 2003 verður svigrúm lánastofnana til að nýta bundið 
    fé til tryggingar fyrir uppgjöri í greiðslukerfum takmarkað við 
    helming umsaminnar tryggingarfjárhæðar. Þessi takmörkun er til 
    þess ætluð að tryggja að lánastofnanir hafi svigrúm á 
    bindireikningi til að mæta sveiflum í lausafjárstöðu.

3. Fyrir lok ársins eru fyrirhugaðar frekari breytingar svo sem að 
    færa bindigrunninn og bindihlutföll til samræmis við reglur 
    Seðlabanka Evrópu. Jafnframt fellur þá niður heimild til að nota 
    bundið fé til tryggingar fyrir uppgjöri í greiðslukerfum.

Búast má við að framangreindar breytingar geti leitt til um helmings lækkunar á bindiskyldu íslenskra lánastofnana.

Nánari upplýsingar veitir Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

Nr. 5/2003
28. febrúar 2003

Til baka