logo-for-printing

28. febrúar 2003

Stefna og markmið Seðlabanka Íslands

Birgir Ísleifur Gunnarsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, ritaði eftirfarandi grein sem Morgunblaðið birti á miðopnu blaðsins í dag:

Þegar Seðlabanki Íslands varð sjálfstæð stofnun árið 1961 var það trú manna bæði hér og erlendis að hægt væri að setja seðlabönkum margs konar markmið. Lítil verðbólga, full atvinna og góður hagvöxtur voru meðal markmiða sem menn töldu að seðlabankar ættu að geta náð. Smám saman varð ljóst að þetta gekk ekki upp. Í starfi seðlabanka gátu þessi markmið rekist hvert á annað og útkoman orðið efnahagslegur óskapnaður.

Á undanförnum árum hefur því löggjöf seðlabanka verið breytt í fjölmörgum löndum og seðlabönkum sett eitt meginmarkmið að tryggja stöðugt verðlag. Verðbólga er fyrst og fremst peningalegt fyrirbæri, þannig að viðvarandi verðbólga er afleiðing ófullnægjandi aðhalds í peningamálum. Til langs tíma hefur stefnan í peningamálum því áhrif á verðlag en síður á hagvöxt og atvinnu. Þegar fjármagnshreyfingar eru frjálsar á milli landa er stjórntæki seðlabanka fyrst og fremst vextir og það stjórntæki getur til lengdar aðeins náð einu þjóðhagslegu markmiði, þ.e. að tryggja stöðugt verðlag.


Ný löggjöf
Þegar Seðlabanka Íslands voru sett ný lög árið 2001 var tekið mið af þessari alþjóðlegu þróun og lögin hér á landi sniðin eftir nýlegri löggjöf annarra iðnríkja. Um þetta var mikil pólitísk samstaða enda gerðu menn sér grein fyrir að lítil verðbólga er einn af hornsteinum hagvaxtar og bættra lífskjara. Jafnframt lagasetningunni var bankanum sett verðbólgumarkmið í sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans. Um leið var ákveðið að gengi íslensku krónunnar skyldi fljóta enda komin reynsla á það að útilokað er að tryggja ákveðið gengi til lengdar þegar fjármagnsflutningar að og frá landinu eru frjálsir. Gengið ræðst því á markaði þar sem framboð og eftirspurn ráða verði krónunnar.


Þessi nýja umgjörð peningastefnunnar fékk strax sína eldskírn. Mikil þensla var í efnahagslífinu og verðbólga stefndi hratt upp á við. Seðlabankinn varð að bregðast við með hækkun vaxta. Gengislækkunin átti þátt í því að viðskiptahallinn hvarf hraðar en menn þorðu að vona fyrir um tveimur árum. Betra jafnvægi er því í þjóðarbúskapnum nú en um nokkurt skeið og horfur á að núverandi slaki verði skammvinnur. Aðhaldssöm peningastefna Seðlabankans skilaði hins vegar árangri í því að í nóvember sl. fór verðbólgan niður fyrir sett markmið sem er 2½%.


Gamlar kenningar skjóta upp kollinum
Að undanförnu hafa farið fram miklar umræður um Seðlabanka Íslands, stefnu hans og markmið. Nú þegar sigrast hefur verið á verðbólgunni skjóta upp kollinum gamlar kenningar um að Seðlabankinn eigi að hafa margs konar markmið. Bankinn á að tryggja fulla atvinnu, hann á að setja sér ákveðin markmið um gengi krónunnar og hann á að tryggja hagvöxt. Í þessum viðhorfum birtist mikil oftrú á getu Seðlabankans og tækja hans. Það er einnig allt of mikil einföldun að einblína á vextina eins og margir gera og ætla að leysa allan vanda með frekari lækkun þeirra.


Seðlabankinn hefur nú á undanförnum tveimur árum lækkað vexti sína þrettán sinnum og eru stýrivextir bankans nú 5,3%. Það eru vissulega hærri vextir en á evru-svæðinu, enda eiga menn þar við langvarandi efnahagslega stöðnun að glíma og mikið atvinnuleysi og útlitið er ekki gott. Seðlabankavextir í Noregi eru á hinn bóginn 6% svo tekið sé dæmi af iðnríki í okkar næsta nágrenni. Raunstýrivextir Seðlabanka Íslands eru nú um 2¾% þegar horft er fram á veginn sem er nokkuð undir núverandi mati á jafnvægisvöxtum. Vextir Seðlabankans hafa því örvandi áhrif á efnahagslífið, enda eru raunvextirnir lægri nú en nokkru sinni síðan vorið 1996. Þá er einnig rétt að hafa í huga að vaxtabreytingar hafa áhrif á eftirspurn og verðbólgu með töluverðum töfum og vaxtalækkanir undanfarinna mánaða eru því enn að skila sér.


Gengi íslensku krónunnar
Engum blandast hugur um að gengi íslensku krónunnar skiptir miklu máli fyrir efnahagslífið. Gengið hefur mikil áhrif á verðlag og afkomu útflutnings- og samkeppnisgreina. Hins vegar verða menn að átta sig á því að Seðlabankinn hefur takmörkuð áhrif á gengið til langs tíma. Margir þættir í efnahagslífinu hafa áhrif á gengið. Þar má nefna utanríkisviðskipti, fjárfestingar erlendra aðila innan lands og fjárfestingar innlendra aðila erlendis og síðast en ekki síst væntingar um þróun efnahagslífsins. Lítill vafi er á því að væntingar vegna stóriðjuframkvæmda hafa haft áhrif á gengið að undanförnu. Vextir hafa vissulega áhrif á gengið, en reynslan hér og annars staðar sýnir að þau áhrif hverfa þegar frá líður svo lengi sem peningastefnan miðar að svipaðri verðbólgu til lengdar og í viðskiptalöndunum. Á sama hátt geta inngrip seðlabanka haft stundaráhrif. Ef gengið hins vegar stefnir í ákveðna átt með þunga getur enginn seðlabanki til lengdar hamlað því. Það er reynslan alls staðar í heiminum þar sem frjálsir fjármagnsflutningar eru milli landa. Það var líka reynsla Seðlabanka Íslands þegar hann reyndi að hamla gegn lækkun krónunnar frá miðju ári 2000 til haustsins 2001. Að krefjast þess nú að Seðlabankinn setji sér gengismarkmið er óraunsætt. Eina ráðið til að festa gengið er að fara í gamla farið og taka upp gjaldeyrishöft og hver vill hverfa aftur til þess tíma' Að keyra niður vexti nú umfram það sem verðbólgumarkmið bankans leyfir til að reyna að knýja niður gengið væri mjög óráðlegt. Nafngengið kynni að lækka eitthvað tímabundið, en næsta er víst að verðbólga færi síðan á skrið og fljótlega sætu menn uppi með svipað raungengi og áður og væru til viðbótar búnir að safna í bálköst næsta ofþenslu- og óstöðugleikatímabils.


Slaki í hagkerfinu
Eftir langt tímabil mikils hagvaxtar sem endaði í ofþenslu sjáum við nú slaka í hagkerfinu með auknu atvinnuleysi. Því er nú m.a. haldið fram að þessi slaki sé einkum vegna aðhaldssamrar stefnu í peningamálum. Reynsla okkar og annarra þjóða sýnir að tímabundinn slaki er oft óhjákvæmilegur fylgifiskur aðhaldssamrar hagstjórnar sem miðar að því að hemja ofþenslu og koma böndum á verðbólgu. Þess vegna m.a. er svo mikilvægt að koma í veg fyrir að slíkar öldur rísi of hátt. Það er hins vegar mikil einföldun að halda því fram að peningastefnan ein skipti hér sköpum. Vextir hafa fyrst og fremst áhrif á eftirspurnina í þjóðfélaginu. Það eru hins vegar margir aðrir þættir sem hafa áhrif bæði á eftirspurnar- og framboðshlið hagkerfisins. Þar má nefna aflaheimildir, ríkisfjármál og framkvæmdir opinberra aðila, fjárfestingar erlendra aðila, t.d. í stóriðju, og launastefnu aðila vinnumarkaðarins. Þeir sem ráða þessum þáttum fara með mikilvæg stjórntæki í efnahagsmálum sem eru utan seilingar Seðlabankans. Það eru því margir aðilar sem koma að stjórn efnahagsmála og fjarri lagi að Seðlabankinn beri þar einn ábyrgðina.


Aðgerðir til að auka hagvöxt og minnka atvinnuleysi
Að undanförnu hefur verið tilkynnt um ýmsar aðgerðir til slökunar í efnahagsmálum. Hinar miklu vaxtalækkanir að undanförnu eiga eftir að skila sér að fullu. Seðlabankinn hefur einnig tilkynnt að á næsta leiti séu tilslakanir á bindiskyldu sem muni losa fé fyrir bankakerfið og ættu að leiða til vaxtalækkana þar. Seðlabankinn kaupir daglega gjaldeyri á gjaldeyrismarkaði og hefur þannig síðan í september sett 11 milljarða íslenskra króna í umferð og vissulega hamlað hækkun gengisins. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að flýta ákveðnum framkvæmdum og verja til þess 6 milljörðum króna. Sveitarfélög og fleiri aðilar hafa boðað aðgerðir sem stefna að sama marki. Það er því ljóst að margt hefur verið gert sem líklegt er að auki hagvöxt og dragi úr atvinnuleysi á næstu mánuðum.


Framundan eru svo mestu framkvæmdir Íslandssögunnar sem munu hafa mikil áhrif á efnahagslífið bæði í bráð og lengd. Þær kalla á trausta hagstjórn. Mikilvægt er að sjá fyrir í tíma hvaða áhrif þessar framkvæmdir myndu hafa ef ekkert væri að gert. Það væri auðvitað fullkomið ábyrgðarleysi að fljóta sofandi að feigðarósi og láta eins og ekkert þurfi að gera til mótvægis þessum framkvæmdum, en slíkar raddir hafa heyrst að undanförnu. Í greiningu Seðlabankans á fyrirhuguðum framkvæmdum kemur fram að með skynsamlegum hagstjórnarviðbrögðum verður hægt að varðveita efnahagsstöðugleika og halda verðbólgu í skefjum. Seðlabanki Íslands mun gera sitt ýtrasta til að það gangi eftir enda hvílir á honum ótvíræð lagaskylda í þeim efnum.


Eftir Birgi Ísl. Gunnarsson
Höfundur er formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands.

Birt í Morgunblaðinu, á miðopnu á síðum 32 og 33 föstudaginn 28. febrúar 2003.

Til baka