logo-for-printing

19. júní 2003

Standard & Poor's staðfestir lánshæfiseinkunnir Íslands

Matsfyrirtækið Standard & Poor's skýrði frá því í dag að fyrirtækið staðfesti allar lánshæfiseinkunnir Íslands, þar með talið einkunnirnar AA+/A-1+ fyrir lán í íslenskum krónum og A+/A-1+ fyrir lán í erlendri mynt. Horfur um lánshæfiseinkunnirnar eru stöðugar.

Fyrirtækið segir íslenska hagkerfið auðugt og sveigjanlegt og ætlað sé að þjóðarframleiðsla á mann muni nema 36.780 Bandaríkjadölum á árinu 2003. Að sögn sérfræðinga Standard & Poor's hefur íslenska hagkerfið sýnt mikinn sveigjanleika með því að ná tiltölulega skjótt jafnvægi eftir tímabil misvægis sem hlaust af mikilli aukningu eftirspurnar og hröðum útlánavexti á nýliðnum árum. Útlánavöxtur var nánast enginn á árinu 2002 en hafði verið 44% árið 2000 og viðskiptahalli sem nam 10,1% af vergri landsframleiðslu (VLF) árið 2000 snerist í 0,3% afgang á árinu 2002 án efnahagslegra áfalla.  Hagvöxtur var lítillega  neikvæður (-0,5%) á árinu 2002 en gert er ráð fyrir að hann verði aftur jákvæður um 2,5% á árinu 2003.

Staða ríkisfjármála er góð þrátt fyrir að útgjöld hafi ítrekað orðið meiri en ætlað var og að fjárlög séu ekki gerð til lengri tíma í senn. Búist er við lítilsháttar halla í ríkisfjármálum eða sem nemur um 0,7% af landsframleiðslu á árinu 2002 og um 0,5% af landsframleiðslu á árinu 2003 vegna niðursveiflu í hagkerfinu og vegna einstakra aðgerða bæði á tekju- og útgjaldahlið, en gert er ráð fyrir að fjárlögin verði í jafnvægi eftir það. Með hliðsjón af bættri stöðu ríkisfjármála og styrkum hagvexti er gert ráð fyrir að ríkisskuldir minnki á ný á komandi árum og verði 31,5% af VLF árið 2006.

Hreinar skuldir við útlönd eru miklar í öllum geirum þjóðarbúsins. Þær nema 244% af heildarútflutningstekjum á árinu 2002 og hlutur skammtímaskulda hefur vaxið að undanförnu. Útstreymi fjármagns frá lífeyrissjóðum vegna fjárfestinga þeirra erlendis jók þrýsting á greiðslujöfnuðinn. Þrátt fyrir skjótan viðsnúning viðskiptajafnaðarins og skipulega eflingu gjaldeyrisstöðu Seðlabankans hefur erlend lausafjárstaða þjóðarbúsins einungis batnað lítillega og er með því lægsta sem þekkist meðal þeirra ríkja sem hafa lánshæfiseinkunn.

Skuldbindingar ríkisjóðs vegna ríkisábyrgða eru enn miklar. Verulegt misvægi ríkti í fjármálageiranum vegna útlánaþenslunnar og hann verður áfram veikur fyrir á meðan áhrifa misvægisins gætir. Þótt arðsemi bankanna hafi batnað og rekstrarvísbendingar styrkst er fjármálageirinn enn viðkvæmur vegna mikilla erlendra skulda og gengissveiflna. Vaxandi erlendar skammtímaskuldir undirstrika þessa viðkvæmni.

Stöðugar horfur endurspegla jafnvægi áhættuþátta í íslenska hagkerfinu, þar sem lág lausafjárstaða gagnvart útlöndum og miklar erlendar skuldir vegast á við sterka stöðu ríkisfjármála og mikinn sveigjanleika hagkerfisins.

Bein erlend fjárfesting mun aukast til muna á næstu árum vegna byggingar álbræðslu og orkuvera á árunum 2004-2009 og örva hagvöxt verulega. Um leið og fjárfestingarnar ættu að renna fleiri stoðum undir hagkerfið til lengri tíma litið gera þær ríkar kröfur til hagstjórnar. Nauðsynlegt verður að beita aðhaldi bæði í ríkisfjármálum og í peningamálum til að koma í veg fyrir að misvægi myndist aftur í hagkerfinu sem gæti enn aukið við hreinar erlendar skuldir sem þegar eru miklar.

Auknar erlendar skuldir eða misvægi í efnahagslífinu í kjölfar væntanlegra framkvæmda gæti þrýst á að lánshæfiseinkunnin lækkaði. Að sama skapi myndi varanlega bætt skuldastaða og bættar rekstrarvísbendingar fjármálastofnana styrkja lánshæfiseinkunnina.

Nánari upplýsingar veita Birgir Ísl. Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands og Jón Þ. Sigurgeirsson framkvæmdastjóri alþjóðasviðs bankans í síma 569-9600.

 

Nr. 18/2003
19. júní 2003

Til baka