logo-for-printing

08. júní 2004

Matsfyrirtækið Moody's staðfestir lánshæfismat sitt fyrir Ísland

Matsfyrirtækið Moody's hefur staðfest lánshæfiseinkunnina Aaa fyrir Ísland og segir mat um stöðugar horfur byggjast á aukinni fjölbreytni hagkerfisins og sveigjanleika þess. Eftirfarandi er lausleg þýðing á fréttatilkynningu fyrirtækisins sem birt var 7. júní 2004.

Í árlegri skýrslu matsfyrirtækisins Moody's Investors Service um Ísland segir að lánshæfiseinkunnin Aaa/P-1 byggi á aukinni fjölbreytni íslenska hagkerfisins og sveigjanleika þess.

Sérfræðingur Moody's bendir á að íslenska hagkerfið sé frábrugðið öðrum hagkerfum í Vestur-Evrópu sökum smæðar, sveiflna í efnahagslífi og mikillar erlendrar skuldsetningar. Þrátt fyrir það leggur sérfræðingur Moody's og einn af höfundum skýrslunnar, Kristin Lindow, áherslu á að sterk staða ríkisfjármála, tiltölulega hagstæð aldurssamsetning þjóðarinnar og kröftugur hagvöxtur styðji þessa lánshæfiseinkunn, sem er sú hæsta sem Moody's gefur.

Hagvöxturinn á síðasta ári mældist 4% og fór langt fram úr væntingum, atvinnuleysi minnkaði hins vegar ekki en verðbólgan var undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands, að sögn Lindow. Engu að síður lýsir sérfræðingurinn áhyggjum af því að ójafnvægis sé þegar farið að gæta í þjóðarbúskapnum, einkum af völdum mikillar uppsveiflu sem hófst með erlendri fjárfestingu á síðasta ári. 

Til dæmis breyttist viðskiptajöfnuðurinn úr því að vera nálægt jafnvægi árið 2002 í halla árið 2003 sem nam 5,6% af VLF og benda hagtölur fyrir fyrsta ársfjórðung 2004 til þess að hann gæti vaxið enn frekar. Erlendar skuldir þjóðarbúsins jukust um 5 milljarða í 16 milljarða (leiðrétt 9. júní) Bandaríkjadala á síðasta ári, en til samanburðar nemur VLF 10,5 milljörðum Bandaríkjadala. Þessa aukningu má einkum rekja til erlendrar lántöku viðskiptabankanna sem fjármagnað hefur öran vöxt innlendra útlána og breytingu á eignarhaldi og endurskipulagningu í íslensku atvinnulífi.

Sérfræðingur Moody's bendir einnig á að verðbólga hefur þokast upp síðustu mánuði. Í nýjustu Peningamálum Seðlabankans er lýst áhyggjum af að verðbólgan verði jafnvel töluvert yfir verðbólgumarkmiðinu allt spátímabilið nema til komi aukið aðhald í peningamálum. Í samræmi við það hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti sína tvisvar um alls 0,45 prósentur undanfarinn mánuð og má búast við fleiri hækkunum ef ekki tekst að ná verðbólgunni niður aftur.
 
Sérfræðingur Moody's leggur áherslu á að ríkisstjórnin hafi einnig sett sér að beita aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum á komandi árum. Matsfyrirtækið telur að ráðamenn á Íslandi virðist vera ákveðnir í að leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að hagkerfið ofhitni líkt og í síðustu hrinu erlendrar fjárfestingar í lok tíunda áratugarins, en sú uppsveifla var einnig knúin áfram af miklum vexti samneyslu og einkaneyslu.

Reyndar er sérfræðingur Moody's fremur bjartsýnn á að ríkisstjórnin standi við fyrirheit sín um aðhald í ríkisfjármálum og breyta fyrirhuguð forsætisráðherraskipti í ríkisstjórninni sem er á þriðja kjörtímabili sínu þar engu um. Engu að síður telur matsfyrirtækið að viðskiptahallinn haldi áfram að aukast umtalsvert á næstu árum vegna mikilla umsvifa í hagkerfinu og mikils innflutnings í tengslum við ál- og orkuver.

Moody's segir að efnahagsaðstæður gætu versnað ef til kæmi mikil lækkun á gengi krónunnar eða óvænt og kröpp efnahagslægð og að í ljósi þess sé enn brýnna að halda áfram að lengja lánstíma erlendra lána þjóðarbúsins. Einnig verði afar mikilvægt að fylgja aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum og peningamálum og að stuðla að hóflegri röðun framtíðarfjárfestinga sem kunna að vera til athugunar.

Án slíks aðhalds óttast sérfræðingur Moody's að sú aðlögun sem nauðsynleg verður til þess að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum á ný geti orðið harkalegri en mjúk aðlögun hagkerfisins 2001-2002. Moody's ítrekar hins vegar að íslenska hagkerfið hafi reynst 'óvenju sveigjanlegt í viðbrögðum sínum við sveiflum og telur matsfyrirtækið að slík aðlögun ætti að geta endurtekið sig.

Nánari upplýsingar veita Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar og Jón Þ. Sigurgeirsson framkvæmdastjóri alþjóðasviðs bankans í síma 569-9600.

 

Nr. 17/2004
7. júní 2004

Til baka