logo-for-printing

29. október 2004

Seðlabanki Íslands hækkar vexti

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentur í 7,25% frá 1. nóvember n.k. Vaxtahækkunin er hin fimmta á þessu ári og er liður í viðbrögðum bankans við miklum vexti innlendrar eftirspurnar og áhrifum stórframkvæmda næstu árin á verðbólguhorfur og þjóðarbúskapinn. Alls hafa stýrivextir bankans verið hækkaðir um 1,95 prósentur síðan í maí sl.

Í Peningamálum sem gefin voru út 17. september sl. var fjallað ýtarlega um þróun og horfur í efnahagsmálum. Greint var frá því að framvindan á fjármálamörkuðum hefði unnið gegn aðgerðum Seðlabankans á undanförnum mánuðum. Óhjákvæmilegt væri að Seðlabankinn brygðist við í ljósi þess að framkvæmdir við virkjanir og álbræðslur myndu vaxa ört á næstu mánuðum. Vaxtahækkuninni sem þá var tilkynnt var öðrum þræði ætlað að vinna á móti þeirri slökun á fjármálalegum skilyrðum sem hræringar síðustu mánaða höfðu haft í för með sér. Frá útgáfu Peningamála hefur skýrst að mikil ásókn er í ný lán í kjölfar breytinga á framboði lánsfjár. Ljóst er að greiðslubyrði einstaklinga léttist verulega sem leiðir til umtalsverðrar aukningar á því fé sem þeir hafa á milli handa til neyslu eða kaupa á íbúðarhúsnæði.

Verðbólga hefur nú um alllangt skeið verið töluvert yfir 2½% verðbólgumarkmiðinu. Því lengur sem þetta ástand varir eykst hættan á að hærri verðbólguvæntingar festist í sessi en þær hafa verið á uppleið undanfarið ár. Raunstýrivextir Seðlabankans hafa fyrir vikið ekki hækkað að ráði. Vaxtahækkun bankans nú er ætlað að vinna á móti slakara aðhaldi peningastefnunnar sakir hærri verðbólguvæntinga og slakari fjármálalegum skilyrðum af völdum sóknar bankanna inn á íbúðalánamarkaðinn og breytinga á útlánareglum Íbúðalánasjóðs.

Líklegt er að frekari aðgerða verði þörf til að ná verðbólgunni niður að verðbólgumarkmiði bankans. Afar brýnt er að hemja verðbólguna. Í því sambandi nægir að nefna að verði hún umtalsvert yfir markmiði bankans gæti það leitt til endurskoðunar á launalið kjarasamninga í nóvember árið 2005 og að þá verði erfiðara að ná verðbólgumarkmiðinu en ella.

Framkvæmdir við virkjanir og stóriðju færast nú í aukana og væru í sjálfu sér ærið viðfangsefni efnahagsstefnunnar þótt ekki kæmi annað til. Æskilegt hefði verið að meira aðhald fælist í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005 og áætlunum til lengri tíma. Án frekara aðhalds er óhjákvæmilegt að peningastefnan bregðist við með kröftugum hætti. Nýlegar spár gefa til kynna að verði ekkert að gert muni viðskiptahalli á næstu tveimur árum verða það mikill að hann gæti grafið undan gengi krónunnar er fram í sækir með tilheyrandi afleiðingum fyrir stöðugleika verðlags og álagi á fjármálakerfið. Aðgerðir í peningamálum geta ekki haft umtalsverð áhrif á þessar horfur nema brugðist sé tímanlega við. Auk þess munu nýlegar breytingar á íbúðalánamarkaði tefja fyrir því að stýrivaxtahækkanir hafi tilætluð áhrif. Rökin fyrir því að hækka vexti fyrr en síðar hafa því styrkst til muna. Tímanleg hækkun þeirra gæti þýtt að ekki þyrfti að hækka vexti jafn mikið síðar til þess að halda verðbólgu í skefjum. Því má búast við frekari hækkun vaxta á komandi mánuðum, nema framvinda efnahagsmála verði verulega frábrugðin því sem nú er útlit fyrir.

Nánari upplýsingar veitir Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

 

Nr. 29/2004
29. október 2004

 

Til baka