Málstofa í dag um erlenda skuldabréfaútgáfu í krónum
Málstofa verður haldin í dag, þriðjudaginn 6. desember 2005, kl. 15.00 í fundarsal Seðlabankans, Sölvhóli. Málshefjandi er Þorvarður Tjörvi Ólafsson og ber erindi hans heitið: „ Erlend skuldabréfaútgáfa í krónum.“
Samantekt
Útgáfa erlendra aðila á skuldabréfum í krónum á rætur sínar að rekja til mikillar innlendrar eftirspurnar eftir lánsfé, sem hefur leitt til hækkunar vaxta og gengis, á sama tíma og vextir eru lágir á alþjóðamörkuðum og fjárfestar eru tilbúnir að feta fáfarnari slóðir í leit sinni að betri ávöxtun. Í málstofunni verður gerð grein fyrir þróun erlendrar skuldabréfaútgáfu í smærri gjaldmiðlum frá upphafi níunda áratugar síðustu aldar, fyrirkomulagi útgáfunnar lýst, drifkröftum hennar og litið á fróðlega reynslu Nýja-Sjálands af útgáfu sem þessari. Þá verður lagt mat á áhrif útgáfunnar á fjármálamarkaði, vexti, gengi krónunnar og áhrifamátt peningastefnu Seðlabankans. Loks verður kastljósinu beint að nánustu framtíð og reynt að gera grein fyrir mögulegum áhrifum útgáfunnar á framvindu efnahagsmála.
Sjá nánar um málstofur á sérstakri síðu.
Sjá ennfremur grein málshefjanda um efnið í desemberhefti Peningamála 2005.