logo-for-printing

05. júní 2006

Standard & Poor's breytir horfum um lánshæfismat ríkissjóðs í neikvæðar

Matsfyrirtækið Standard & Poor’s greindi frá því í dag að það hefði breytt horfum á lánshæfismati ríkissjóðs Íslands í neikvæðar úr stöðugum vegna aukinnar hættu á harðri lendingu íslenska hagkerfisins. Matsfyrirtækið staðfesti einnig óbreyttar lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt AA- (les: AA mínus) og AA+ (les: AA plús) fyrir langtímaskuldbindingar í íslenskum krónum. Ennfremur var einkunnin A-1+ (les: A1 plús) fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt og íslenskum krónum staðfest.

Í frétt Standard & Poor’s segir eftirfarandi í lauslegri þýðingu:

Standard & Poor’s breytti einnig horfum sínum á lánshæfismati fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt hjá Íbúðalánasjóði í neikvæðar úr stöðugum og staðfesti lánshæfiseinkunnir hans AA- (les: AA mínus) fyrir langtímaskuldbindingar og A-1+ (les: A1 plús) fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt. Lánshæfiseinkunnir fyrir skuldbindingar sjóðsins í íslenskum krónum eru áfram á athugunarlista vegna hugsanlegrar lækkunar en gert er ráð fyrir að það muni skýrast á þriðja ársfjórðungi 2006.

Breytingin á horfum endurspeglar auknar líkur á harðri lendingu þeirrar útlána- og fjárfestingaþenslu sem hófst árið 2004, þegar dregur úr því þjóðhagslega ójafnvægi sem skapast hefur. Auknar launahækkanir og annar verðbólguþrýstingur munu kalla á frekari stýrivaxtahækkanir frá núverandi stigi sem er 12,25%. Það þrýstir síðan niður innlendri eftirspurn og eykur fjármálalega áhættu bæði í einkareknum og opinberum fjármálafyrirtækjum.

Það sem styður lánshæfismatið er mikil hagsæld og stöðugt og sveigjanlegt stjórnkerfi sem nýtur almenns stuðnings.

Mikil innlend eftirspurn, nýleg veiking krónunnar og hröð hækkun launa hafa ýtt verðbólgunni vel yfir efri þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans sem er 4%, þrátt fyrir endurteknar stýrivaxtahækkanir. Þá er ekki er búist við að stefnan í ríkisfjármálum í aðdraganda þingkosninganna 2007 styðji viðleitni Seðlabankans til að draga úr verðbólgu. Af þeim sökum mun verðbólguþrýstingur líklega leiða til frekari hækkana á raun- og nafnvöxtum, sem skapar hættu á að aðlögunarferlið verði sársaukafyllra og raski hagkerfinu meira en ella.

Íslenska hagkerfið mun fara inn í þetta tímabil minni umsvifa með litla skuldabyrði hins opinbera eða 24% af landsframleiðslu árið 2006 sem er helmingur þess sem var fyrir 5 árum. Hins vegar hefði alvarlegur samdráttur í efnahagslífi áhrif bæði á afkomu ríkissjóðs og á skuldbindingar hans vegna annarra (e. contingent liabilities), t.d. ábyrgð á skuldum Íbúðalánasjóðs eða skuldbindingar gagnvart fjármálakerfinu.

Bætt lagaumhverfi og fjármálaeftirlit, aukin starfsemi innlendra banka á erlendri grundu og nýleg innkoma viðskiptabanka inn á húsnæðislánamarkaðinn hefur styrkt íslenska fjármálakerfið. Engu að síður mun mjög mikil erlend skuldsetning bankanna, mikil markaðsfjármögnun auk hættu á versnandi lánagæða á Íslandi vera áhyggjuefni.

Að auki er erlend fjármögnunarþörf hagkerfisins ein sú mesta sem um getur meðal ríkja sem hafa lánshæfiseinkunn en hana má rekja til mjög mikilla erlendra skulda á öllum sviðum efnahagslífisins og mikils viðskiptahalla (sem búist er við að lækki í 7% af landsframleiðslu 2007 og 2% árið 2009 frá því að vera 16% af landsframleiðslu árið 2005) auk beinnar erlendrar fjárfestingar og erlendra hlutabréfakaupa innlendra aðila. Þar af leiðandi verða hreinar erlendar skuldir áfram um 300% af útflutningstekjum til loka áratugarins þrátt fyrir vöxt útflutningstekna árin 2007- 2008 vegna aukinnar álframleiðslu.

Horfur
Neikvæðar horfur endurspegla þá áhættu sem stafar af vaxandi ójafnvægi í hagkerfinu. Vaxtahækkanir auka líkurnar á snarpri aðlögun og gætu haft óhagstæð áhrif á efnahag einkaaðila og þannig á efnahag hins opinbera. Verði ekki gripið til virkra aðgerða til þess að halda innlendri eftirspurn og verðbólgu í skefjum, og ef kemur til mikils samdráttar og versnandi efnahags, eins og lýst er hér að ofan, gæti það leitt til lækkunar á lánshæfismatinu. Ef hins vegar tekst með samspili í efnahagsstjórn að draga úr ójafnvæginu og tengdum áhættuþáttum gætu horfur um lánshæfismatið orðið stöðugar á ný.

Aðalsérfræðingur hjá S&P:
Eileen Zhang, London, (44) 20-7176-7105,
eileen_zhang@standardandpoors.com

 

Nr.21/2006  
5. júní 2006

Til baka