Skuldabréfaútboð á Evrópumarkaði
Ríkissjóður Íslands lauk í dag skuldabréfaútboði á Evrópumarkaði (e. EMTN, European Medium Term Note Program). Fjárhæð útboðsins var einn milljarður evra eða sem samsvarar 90 milljörðum íslenskra króna. Skuldabréfin bera fasta vexti og eru með gjalddaga 1. desember árið 2011. Kjör bréfanna reyndust 0,01 prósentu undir millibankavöxtum (EURIBOR). Mikill áhugi var á útboðinu meðal fjárfesta og bárust kauptilboð að fjárhæð um 1,7 milljarðar evra frá um 60 aðilum. Fjárfestahópurinn er breiður, flestir kaupendur bréfanna eru frá Evrópu en einnig var nokkur áhugi frá asískum stofnanafjárfestum. Barclays Capital, Citigroup og Dresdner Kleinwort höfðu aðalumsjón með útgáfunni. Lánið verður að fullu notað til styrkingar á gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands.
Nánari upplýsingar veita bankastjórn Seðlabanka Íslands og Sturla Pálsson framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs í síma 569-9600.
Nr. 42 /2006
22. nóvember 2006