logo-for-printing

30. desember 2006

Endurskoðun á gjaldmiðlavogum 2006

Frá og með 1. desember 2006 voru teknar upp nýjar aðferðir við útreikning gengisvísitalna sem Seðlabankinn birtir. Ekki er fyrirhugað að uppfæra frekar gjaldmiðlavog sem notuð hefur verið til að reikna svokallaða vísitölu gengisskráningar og verður birtingu hennar hætt í árslok 2008. Reiknaðar voru nokkrar nýjar vísitölur. Vægi einstakra gjaldmiðla í nýju vísitölunum er töluvert frábrugðið því sem lá til grundvallar útreikningi vísitölu gengisskráningar. Einkum dregur úr vægi Bandaríkjadals. Vogir sem notaðar eru til að reikna nýju vísitölurnar byggja á utanríkisviðskiptum liðins árs og eru vogir uppfærðar í september hvert ár. Meðfylgjandi töflur sýna nýju vogirnar miðað við utanríkisviðskipti ársins 2005 og breytingar frá fyrri vogum.

Minnt er á að Seðlabankinn mun í framhaldinu hætta birtingu núverandi vísitölu gengisskráningar. Vísitalan verður þó reiknuð áfram til ársloka 2008 út frá núgildandi vog sem tók gildi í júlí 2005.

Megintilgangur breytinganna er að vogirnar endurspegli eins vel og kostur er samsetningu utanríkisviðskipta þjóðarinnar, bæði vöru- og þjónustuviðskipta. Í því skyni hefur gjaldmiðlum verið fjölgað. Útreikningur gjaldmiðlavoga hefur verið einfaldaður og gerður kerfisbundnari og jafnframt líkari því sem tíðkast í öðrum löndum. Í Peningamálum 2006/2 er ástæðum breytinga á aðferðum við útreikning vísitalnanna lýst nánar. Alls eru reiknaðar 4 tegundir vísitalna. Tvær þeirra byggja á vöruviðskiptavogum eingöngu en innihalda mismarga gjaldmiðla, en hinar tvær taka einnig tillit til ferðamennsku. Vogirnar sem notaðar eru við útreikning vísitalnanna eru sem hér segir:

A. Þröng vöruskiptavog: Reiknuð út frá vöruviðskiptum við öll lönd sem vega að minnsta kosti 1% í vöruviðskiptum Íslands undangengin þrjú ár.

B. Víð vöruskiptavog: Reiknuð út frá vöruviðskiptum við öll lönd sem vega að minnsta kosti 0,5% í vöruviðskiptum Íslands undangengin þrjú ár.

C. Þröng viðskiptavog: Eins og A, nema hvað einnig er tekið tillit til hlutfalls ferðamennsku í þjónustuviðskiptum. Skipting tekna af ferðamennsku er áætluð út frá landaskiptingu gistinátta erlendra ferðamanna á hótel og gistiheimilum, en gjöldin byggja á landaskiptingu kreditkortanotkunar Íslendinga erlendis.

D. Víð viðskiptavog: Eins og B, nema tekið er tillit til ferðamennsku eins og í C.
Viðskipti við lönd sem uppfylla ekki ofangreind skilyrði um 0,5% hlutfall í heildarviðskiptum í víðari vogunum eða 1% í þrengri vogunum fá vægið núll. Inntaka og brottfall gjaldmiðla er miðuð við þriggja ára meðaltal vöruviðskipta. Þannig er komið í veg fyrir að oft þurfi að bæta gjaldmiðlum inn eða fella þá úr vogunum vegna árssveiflna í viðskiptum. Ekki er tekið tillit til þriðjulandaáhrifa í nýju vogunum.

Töflur er sýna vogirnar:

Vogir

Nýju vöruviðskipta vísitölurnar hafa verið reiknaðar aftur til ársins 1995 en nýju viðskiptavísitölurnar aftur til 1999 og eru þessar tímaraðir aðgengilegar á heimasíðu Seðlabankans.

Til baka