30. mars 2007
Ávarp Helga S. Guðmundssonar formanns bankaráðs á ársfundi Seðlabanka Íslands 30. mars 2007
Hæstvirtur forsætisráðherra, ráðherrar, aðrir góðir gestir.Fyrir hönd bankaráðs Seðlabanka Íslands býð ég ykkur velkomin til þessa fertugasta og sjötta ársfundar bankans og segi fundinn settan. Að loknum inngangsorðum mínum flytur formaður bankastjórnar Davíð Oddsson ársfundarræðu sína fyrir hönd bankastjórnar. Að endingu ávarpar Geir H. Haarde forsætisráðherra fundinn. Að loknum fundarstörfum býð ég fundargestum að þiggja veitingar.
Á fundi bankaráðs fyrr í dag staðfesti forsætisráðherra ársreikning bankans fyrir árið 2006 með áritun sinni. Ársskýrsla bankans fyrir árið 2006 er gefin út í dag og liggur frammi í lok fundarins.
Ársreikningur Seðlabanka Íslands er gerður upp á grundvelli reglna sem settar eru af forsætisráðherra, síðast í desember 2005. Samkvæmt rekstrarreikningi varð hagnaður af rekstri bankans á liðnu ári að fjárhæð 11,8 milljarðar króna. Hann skýrist nánast að öllu leyti af gengishagnaði. Að honum slepptum varð 48 milljóna króna hagnaður fyrir framlag til ríkissjóðs. Á árinu 2006 jukust vaxtatekjur bankans um 162% og vaxtagjöld um 178%. Í heild námu vaxtatekjur 15,6 milljörðum króna og vaxtagjöld 13,7 milljörðum króna þannig að hreinar vaxtatekjur námu 1,9 milljörðum króna. Rekstrargjöld bankans, þ.e. laun og launatengd gjöld og annar rekstrarkostnaður, námu 1,5 milljörðum króna, afskriftir 90 milljónum króna og aukaframlag til Lífeyrissjóðs bankamanna 386 milljónum króna í samræmi við samkomulag sjóðsins og aðildarfyrirtækja hans. Samkvæmt lögum nemur framlag til ríkissjóðs þriðjungi hagnaðarins, þ.e. 16 milljónum króna. Hagnaður bankans eftir framlag til ríkissjóðs og án gengishagnaðar nam því 32 milljónum króna á árinu.
Á árinu 2006 hækkaði niðurstöðutala efnahagsreiknings Seðlabankans um 159 milljarða króna í tæpa 322 milljarða króna í lok ársins. Skýringin er einkum sú að innstæður ríkissjóðs í Seðlabankanum jukust um 135 milljarða króna á árinu og námu 211 milljörðum króna í lok þess. Innstæða á viðskiptareikningum ríkissjóðs hækkaði um 47 milljarða króna og innstæða á gjaldeyrisreikningi nam 94 milljörðum króna í árslok. Gjaldeyrisinnstæðan er einkum andvirði 1 milljarðs evra láns sem ríkissjóður tók undir lok ársins til eflingar gjaldeyrisforða Seðlabankans. Fjárhæð seðla og myntar í umferð jókst um 10% í 14,5 milljarða króna og skuldir Seðlabankans við innlánsstofnanir um liðlega 10 milljarða króna. Á eignahlið efnahagsreiknings jukust kröfur Seðlabankans á fjármálastofnanir um 59 milljarða króna og erlendar eignir um 101 milljarð króna. Aukning erlendu eignanna stafar að mestu af umræddri lántöku ríkissjóðs en að hluta af áhrifum gengislækkunar krónunnar. Í árslok nam eigið fé bankans rúmum 48 milljörðum króna og hafði hækkað um tæpa 12 milljarða króna frá ársbyrjun. Í fjárlögum ársins 2007 var ríkissjóði veitt heimild til að efla eigið fé Seðlabankans.
Sem fyrr segir tók ríkissjóður Íslands 1 milljarðs evra lán á alþjóðlegum markaði á árinu 2006 í því skyni að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans. Heildarandvirði lánsins var lagt inn í bankann á gjaldeyrisreikning. Af þeirri innstæðu hefur ríkissjóður sömu vexti og hann greiðir af hinu erlenda láni.
Ég hef aðeins drepið á helstu liði í ársreikningi bankans. Í ársskýrslunni er reikningurinn birtur í heild sinni ásamt skýringum auk þess sem ítarlegri grein er gerð fyrir afkomu bankans á árinu og breytingum á efnahagsreikningi en ég hef gert í máli mínu hér.
Í júní 2006 lét Jón Sigurðsson bankastjóri af störfum þegar hann var skipaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Íslands. Að forminu til var hann í leyfi frá störfum frá miðjum júní til loka ágúst á síðasta ári. Jón var skipaður bankastjóri í Seðlabankanum frá 1. október 2003. Hann sat því í bankastjórninni í hátt í þrjú ár. Áður hafði Jón setið í bankaráði í rúmlega tvö ár. Fyrir hönd bankaráðs þakka ég Jóni Sigurðssyni mjög ánægjulegt samstarf, bæði sem bankastjóri og bankaráðsmaður.
Ingimundur Friðriksson var settur bankastjóri í Seðlabankanum frá 15. júní sl. og síðan skipaður bankastjóri til sjö ára frá 1. september sl. Ingimundur hafði verið aðstoðarbankastjóri frá 1994 og raunar settur bankastjóri í eitt ár frá 2002 til 2003.
Nokkrar breytingar urðu á starfsliði bankans á árinu. Alls hættu 15 starfsmenn störfum en tíu hófu störf þannig að starfsmönnum fækkaði um 5. Í árslok voru starfsmenn bankans 111 að tölu en starfsgildi voru 102. Meðal þeirra sem létu af störfum og fóru á eftirlaun var Sveinn Erling Sigurðsson framkvæmdastjóri tölfræðisviðs. Þá lét Lilja Steinþórsdóttir aðalendurskoðandi af störfum á árinu. Aðalendurskoðandi heyrir beint undir bankaráðið og er ráðinn af því. Fyrir hönd bankaráðsins þakka ég Lilju ánægjulegt samstarf. Í stað hennar réð bankaráð Stefán Svavarsson aðalendurskoðanda bankans. Þess má geta að á liðnu ári náði einn starfsmanna bankans, Karl Smith, þeim áfanga að hafa starfað í bankanum og forvera hans, Landsbanka Íslands, í 50 ár samfellt. Fyrir hönd bankans þakka ég Karli einkar farsæl störf öll þessi ár.
Hörð samkeppni er um hæft starfsfólk á meðal fjármálastofnana sem kemur ekki á óvart eins hratt og umsvif íslenskra banka hafa vaxið. Afar mikilvægt er fyrir Seðlabankann að hafa jafnan í þjónustu sinni eins gott starfslið og völ er á og verður hann að taka mið af ríkjandi umhverfi til þess að svo geti verið.
Sú breyting varð í bankaráðinu á árinu 2006 að Ólafur G. Einarsson lét af formennsku sem hann hafði gegnt frá 1998. Í hans stað var Helgi S. Guðmundsson kosinn formaður. Ólafur var kjörinn varaformaður. Fyrir hönd bankaráðs þakka ég Ólafi einkar farsæla forystu þau ár sem hann stýrði því. Bankaráð hélt 22 fundi á árinu 2006. Ég þakka fulltrúum í bankaráði mjög ánægjulegt samstarf og vel unnin störf. Þá þakka ég bankastjórn og starfsfólki bankans mjög góð störf á liðnu ári og gott samstarf við bankaráð.