Málstofa um gagnsæi í starfsemi seðlabanka
Þriðjudaginn 8. maí 2007 klukkan 15.00 verður haldin í Sölvhóli, Seðlabanka Íslands, málstofa er ber heitið:
Gagnsæisbyltingin í hæstu hæðum - seðlabankar „koma út úr skápnum“.
Ágrip: Gagnsæisbyltingin í starfsemi seðlabanka hefur fært þeim tvo mikilvæga lærdóma um framkvæmd peningastefnu. Annars vegar að peningastefnan sé árangursríkari ef hún er fyrirsjáanleg. Hins vegar að kynning á rökstuðningi fyrir ákvörðunum í peningamálum geti jafnvel skipt enn meira máli en ákvörðunin sjálf hverju sinni. Samskipti seðlabanka við almenning og markaðsaðila eru helsta stjórntæki peningastefnunnar enda ræðst árangur hennar fyrst og fremst af því hversu vel peningayfirvöldum gengur að hafa áhrif á væntingar. Spár seðlabanka gegna lykilhlutverki í þessum samskiptum en til þess að þær sýni að framkvæmd peningastefnunnar sé trúverðug, kerfisbundin og gagnsæ þurfa þær að byggjast á stýrivaxtaþróun sem samrýmist sýn peningayfirvalda. Seðlabankar hafa hins vegar verið tregir til að veita upplýsingar um líklega framvindu stýrivaxta. Seðlabanki Íslands er fjórði seðlabankinn til að birta eigin stýrivaxtaspá. Með því skrefi skipar bankinn sér í sveit þeirra seðlabanka sem hafa gengið hvað lengst í gagnsæisátt. Líklegt er að fleiri seðlabankar fylgi í kjölfarið og „komi þannig út úr skápnum“.
Málshefjandi: Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur á rannsóknar- og spádeild hagfræðisviðs Seðlabanka Íslands.