logo-for-printing

02. september 2008

Ávarp Ingimundar Friðrikssonar bankastjóra

Ávarp á fundi Norðurlanda og Eystrasaltslanda um greiðslumiðlun og verðbréfauppgjör í Reykjavík 25. – 26. ágúst 2008

- (Ávarp Ingimundar Friðrikssonar, bankastjóra, á PDF-formi.)

Ég býð ykkur velkomin til Reykjavíkur og í Seðlabanka Íslands.

Seðlabanki Íslands er ungur að árum. Hann var stofnaður með lögum árið 1961 og sinnir öllum hefðbundnum verkefnum sem tilheyra starfsemi seðlabanka. Starfsmenn bankans eru um 115 sem telst ekki margt. Seðlabanki Íslands hefur verðbólgumarkmið og sinnir öllum verkefnum sem það krefst. Bankinn gegnir skýrt skilgreindu hlutverki á sviði fjármálastöðugleika, hefur umsjón með lánamálum ríkissjóðs, sér um að ávaxta gjaldeyrisforða, gefur út seðla og mynt, og svo framvegis.

Okkur er sönn ánægja að halda þennan fund. Eflaust getum við lært mikið hvert af öðru á vettvangi greiðslumiðlunar. Þar af leiðandi er mikilvægt að við berum saman bækur okkar í þeim tilgangi að tryggja áframhaldandi öryggi og skilvirkni í rekstri greiðslu- og uppgjörskerfa í löndum okkar. Norðurlöndin hafa lengi haft samstarf á þessu sviði og nú hafa Eystrasaltsríkin gengið til liðs við okkur sem virkir samstarfsaðilar.

Sagt hefur verið að hlutverk seðlabanka sé í meginatriðum þríþætt: (1) Að tryggja verðstöðugleika; (2) að viðhalda fjármálastöðugleika; og (3) að tryggja hnökralausan og öruggan rekstur greiðslu-, og uppgjörskerfa.

Örugg og skilvirk greiðslumiðlun er meðal hornsteina fjármálastöðugleika og greiðslu- og uppgjörskerfi eru sá grunnur sem greiðslumiðlun byggist á. Þar af leiðandi eru strangar kröfur gerðar til þessara kerfa um öryggi og skilvirkni. Dagleg verkefni ykkar snúast m.a. um að fylgjast með þróun á þessu sviði og að móta stefnu og stuðla að framförum í takti við alþjóðleg tilmæli og stefnumið seðlabanka ykkar.

Starfsemi greiðslukerfa er einnig mikilvæg þótt í augum þeirra er lítt þekkja til mála séu þau ef til vill frekar óspennandi. Sumir telja að þau einkennist af hægri þróun og jafnvel stöðnun. Auðvitað er það rétt að greiðslumiðlun og grunngerð greiðslukerfa er mjög sérhæfð en ef grannt er skoðað er hún í raun ákaflega áhugaverð. Staðreyndin er einnig sú að greiðslumiðlun hefur þróast ört á undanförnum árum. Æ strangari kröfur eru gerðar um öryggi, skilvirkni, hagkvæmni og gagnsæi. Velta í greiðslukerfum hefur margfaldast, samstarf innan landa og á alþjóðlegum vettvangi hefur vaxið mjög og kauphallir og verðbréfamiðstöðvar hafa sameinast eða stofnað til formlegs samstarfs. Greiðslukerfi hafa þróast úr sérsniðnum eða svæðisbundnum lausnum í hverju landi fyrir sig yfir í stöðluð kerfi sem þarf þó laga að vissu marki að sögulegu og tæknilegu umhverfi hvers markaðar eða ríkis.

Grundvöllur greiðslumiðlunar hér á landi er að vissu leyti einstakur og innlend greiðslumiðlun byggist á löngu og farsælu samstarfi milli Seðlabanka Íslands, viðskiptabanka og sparisjóða landsins, eins og verður nánar lýst á fundinum á morgun. Seðlabanki Íslands hafði forgöngu um þetta samstarf sem hófst 1973. Starfsemi íslensku greiðslu- og uppgjörskerfanna í núverandi mynd er frá 2001 og 2002 en rætur þeirra og grundvöllur liggja í samvinnunni sem hófst fyrir 35 árum.

Í upphafi – og reyndar lengi vel – var starfsemi íslenska greiðslumiðlunarkerfisins meira og minna afmörkuð við Ísland. Kerfið var afar skilvirkt, hagkvæmt og notendavænt en sótti ekki endilega fyrirmyndir í erlend kerfi. Eftir miðbik síðasta áratugar hafði Seðlabanki Íslands frumkvæði að því að þróa kerfið í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar kröfur. Eftir margra ára uppbyggingu og úrbætur uppfylla íslensk greiðslukerfi þessar kröfur. Þó er alltaf svigrúm til frekari úrbóta þar sem markaðir og innviðir eru í örri þróun. Á undanförnum árum hefur Seðlabankinn lýst þessum kerfisbreytingum ítarlega í ársskýrslu sinni og öðrum reglulegum ritum, þ.m.t. ársriti bankans, Fjármálastöðugleika.

Greiðslukerfi sem nú eru í notkun á Íslandi eru góð og skilvirk. Alvarleg vandamál hafa verið fátíð og „uppitími” kerfisins hlutfallslega mjög hár. Umhverfið breytist hratt og þróunin er ör. Þess vegna verðum við að vera vel vakandi fyrir breytingum og vera búin undir að gera breytingar í samræmi við alþjóðlega þróun, ört vaxandi veltu og aukið mikilvægi greiðslumiðlunar fyrir hagkerfið og fjármálastöðugleika almennt. Ef við lítum um öxl má sjá að við höfum áorkað miklu á þessu sviði, svo sem:
• Formlegu ytra mati á greiðslukerfum
• Innra mati á afmörkuðum þáttum kerfisins
• Kerfisþróun, nýjum uppfærslum og ýmsum úrbótum
• Bættu regluverki og lagaramma
• Auknu gagnsæi í stjórnun kerfisins
• Uppfærðri gjaldskrá og auknu gagnsæi hennar
• Ítarlegri tölfræðilegri greiningu
• Auknu samráði meðal þátttakenda
• Árangursríkri starfsemi og aukinni virkni og þjónustu kerfisins
• Bættum viðbúnaðarferlum

Samt sem áður eru margar breytingar enn í sjónmáli. Meðal þeirra eru:
• Aukin samskipti yfir landamæri
• Aukin áhersla á fjármálastöðugleika og aukin vitund um mikilvægi hans
• Aukin aðgreining og sjálfstæði einstakra greiðslukerfa

Mörg mikilvæg verkefni eru í vinnslu eða í vændum. Meðal þeirra eru:
• Úttekt á verðbréfauppgjörskerfinu, m.t.t. uppgjörs í krónum og fyrirhugaðs uppgjörs verðbréfaviðskipta í evrum
• Ítarleg úttekt á stórgreiðslukerfinu
• Hönnun innra matskerfis innan bankans til þess að tryggja að kerfislega mikilvæg kerfi uppfylli innlendar og alþjóðlegar kröfur
• Frekari betrumbætur á regluverki og lagaramma, sérstaklega varðandi verðbréfauppgjörskerfið

Núverandi skipulag íslenskrar greiðslumiðlunar felur í sér vissa rekstrarlega áhættuþætti sem var meðal annars bent á af sérfræðingum sænska seðlabankans í úttekt sem gerð var fyrir nokkrum árum. Úttektin sem var gerð að beiðni Seðlabanka Íslands beindist ekki síst að því að meta hve vel stórgreiðslukerfi bankans uppfyllti reglu nr. 7 úr kjarnareglunum 10 frá Alþjóðagreiðslubankanum í Basel. Frá þeim tíma hafa ýmsar úrbætur verið gerðar í samræmi við tillögur sænsku sérfræðinganna. Allar breytingarnar miða að því að auka skilvirkni og skilgreina og stýra undirliggjandi áhættuþáttum eftir því sem kostur er, miðað við núverandi uppbyggingu kerfa og rekstrarfyrirkomulag. Eins og ég nefndi áðan hyggst bankinn gera ítarlega úttekt á stórgreiðslukerfinu og hversu vel það uppfyllir kjarnareglurnar 10. Auk þess verður metið hvort bankinn ætti að þróa núverandi kerfi áfram eða fjárfesta í nýju kerfi, eins og gert hefur verið í Svíþjóð og Noregi. Þýðingarmikið verður fyrir Seðlabanka Íslands að fá tækifæri til að læra af reynslu Norðmanna og Svía af hinum nýju kerfum.

Í júní á þessu ári gerði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn framhaldsúttekt á íslenska fjármálakerfinu og var hún liður í svokölluðu Financial Sector Assessment Program (FSAP). Meðal viðfangsefna var mat á kerfislega mikilvægum greiðslukerfum. Úttektin var þó ekki heildstætt mat á því hvort eða að hve miklu leyti íslenska fjármálakerfið uppfyllir kjarnareglurnar 10 heldur mat á því hvort Ísland hefði farið að tillögum og tilmælum sjóðsins í fyrri FSAP-úttektum. Niðurstaðan var sú að það hefði verið gert. Auk þess benti sjóðurinn á tiltekna þætti í regluverki og framkvæmd á Íslandi sem gætu þarfnast breytinga. Við munum taka þessar ábendingar til athugunar.

Úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins beindist ekki einungis að stórgreiðslukerfinu og jöfnunarkerfinu, heldur einnig að verðbréfauppgjörskerfinu. Í þessu samhengi er nauðsynlegt að athuga einnig nokkra þætti sem eru til skoðunar um þessar mundir hjá Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu, í sameiginlegri úttekt þeirra á kerfum Verðbréfaskráningar Íslands. Bankinn og FME hyggjast ljúka þeirri úttekt áður en stórgreiðslukerfið er skoðað.

Nokkur íslensk fyrirtæki hafa lýst yfir áhuga á því að skrá hlutabréf sín í evrum. Lagalega séð er ekkert því til fyrirstöðu. Ef hlutabréf eru skráð í evrum verður að ganga úr skugga um að uppgjör viðskipta með þau uppfylli lagaleg skilyrði, innlend sem erlend. Um þessar mundir er Verðbréfaskráning Íslands að vinna að undirbúningi á fyrirkomulagi slíks uppgjörs í samvinnu við Seðlabanka Finnlands þannig að peningalegt uppgjör íslenskra verðbréfaviðskipta í evrum geti farið fram í gegnum stórgreiðslukerfi evrulands, Target2. Seðlabanki Íslands hefur ekkert á móti slíku fyrirkomulagi. Bankinn yrði ekki beinn rekstraraðili að slíkri lausn þótt hann muni hafa yfirsýn yfir fyrirkomulag uppgjörs í evrum í samvinnu við Seðlabanka Finnlands.

Eins og ykkur er kunnugt hefur Seðlabanki Evrópu ákveðið að hefja undirbúning að hönnun og þróun nýs verðbréfauppgjörskerfis undir heitinu Target2 – Securities, sem verður byggt á Target2-stórgreiðslukerfinu. Þess er vænst að nýja verðbréfauppgjörskerfið stuðli að aukinni samhæfingu og hagkvæmni. Þetta á þó eftir að koma í ljós, sérstaklega í sambandi við uppgjör verðbréfaviðskipta í öðrum gjaldmiðlum en evru.

Verðbréfamiðstöðvum utan evrusvæðisins stendur til boða að gerast þátttakendur í hinu fyrirhugaða kerfi og opnað hefur verið fyrir þann möguleika að gera upp verðbréfaviðskipti í öðrum gjaldmiðlum en evru óski verðbréfamiðstöð eftir því og að því tilskildu að seðlabanki viðkomandi lands styðji þá lausn þannig að uppgjör geti farið fram í gjaldmiðli hans. Hvorki Verðbréfaskráning Íslands né Seðlabanki Íslands hefur tekið formlega afstöðu til þessa máls.

Ég sé að mörg mál eru á dagskrá ykkar á vettvangi greiðslu- og uppgjörskerfa. Það er einlæg von mín að fundur ykkar verði sem árangursríkastur. Enn og aftur býð ég ykkur öll velkomin.



Til baka