logo-for-printing

04. júní 2009

Yfirlýsing peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands 4. júní 2009

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka stýrivexti bankans um 1,0 prósentu í 12,0%. Innlánsvextir verða óbreyttir, eða 9,5%.

Markaðsvextir hafa lækkað umtalsvert frá maíbyrjun. Skammtímavextir hafa lækkað um u.þ.b. 4 prósentur og raun- og nafnvextir langtímaskuldabréfa um 0,5 og 1,5 prósentur. Fyrir vikið hefur ávöxtunarferillinn orðið flatari en áður, sem hvetur fjárfesta til þess að auka hlutdeild langtímaskuldabréfa í eignasöfnum. Innlánsvextir hafa einnig lækkað umtalsvert.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar frá 7. maí kom fram að nefndin vænti áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds að því tilskildu að gengisþróun yrði hagfelld og að áætlunum um aðhald í ríkisfjármálum miðaði áleiðis. Síðan þá hefur gengi krónunnar verið lágt. Þótt umtalsverður afgangur á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd styðji við krónuna virðist afgangurinn á fyrsta fjórðungi ársins hafa verið minni en vænst var sakir halla á þjónustuviðskiptum og umtalsverðrar verðlækkunar útflutnings. Vöruskiptaafgangur í apríl var einnig fremur lítill. Seðlabankinn hefur beitt inngripum á gjaldeyrismarkaði til þess að styðja við gengi krónunnar. Eigi að síður hefur hreinn gjaldeyrisforði bankans aukist nokkuð sl. ársfjórðung.

Þótt samdráttur eftirspurnar og aukið atvinnuleysi hafi dregið úr verðbólguþrýstingi, gætir enn töluverðra gengisáhrifa í hækkun vísitölu neysluverðs. Þau skýra 1,1% hækkun hennar í maí að mestu leyti. Tímabundin hækkun húsnæðisliðar vísitölunnar stuðlaði einnig að hækkun hennar. Tólf mánaða verðbólga minnkaði úr 11,9% í apríl í 11,6% í maí. Haldist gengi krónunnar og nafnlaun stöðug, er þess að vænta að verðbólgan hjaðni svipað og spáð var maí og verði nálægt 2,5% markmiðinu í byrjun næsta árs.

Eins og fram kom í maí telur peningastefnunefndin viðeigandi að samspil efnahagsaðgerða færist í átt til aukins aðhalds í fjármálum hins opinbera og slökunar peningalegs aðhalds, að því marki sem það samrýmist gengisstöðugleika. Fyrstu aðhaldsaðgerðir í fjármálum hins opinbera hafa þegar verið samþykktar á Alþingi. Eftir því sem fleiri aðgerðir koma til framkvæmda mun peningastefnunefndin meta áhrif þeirra og afleiðingar fyrir mótun stefnunnar í peningamálum. Nefndin telur að ákvarðanir um aðhaldsaðgerðir sem koma til framkvæmda í ár og skýr skuldbinding stjórnvalda um aðhaldsaðgerðir á árunum 2010-2012 séu grundvöllur þess að endurheimta traust markaðarins og skapa þannig svigrúm til áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds.

Að lokum er nauðsynlegt að taka mið af afnámi gjaldeyrishafta, sem líklegt er að hefjist seint á þessu ári. Með því að gæta varúðar við slökun peningalegs aðhalds gefst færi á að afnema gjaldeyrishöftin án þess að stöðugleika krónunnar sé stefnt í tvísýnu. Þegar fyrir liggja betri upplýsingar um greiðslujöfnuð við útlönd, aðhaldsaðgerðir í opinberum fjármálum til langs tíma hafa verið samþykktar, tvíhliða- og marghliða lánasamningum sem styrkja gjaldeyrisforðann er lokið og þegar endurskipulagning fjármálageirans er langt komin verður hægt að taka fyrstu skrefin að afnámi hafta með því að gefa nýfjárfestingu frjálsa. Höft á fjármagnshreyfingar verða afnumin í áföngum sem samrýmast stöðugu gengi.

Næsta yfirlýsing peningastefnunefndarinnar verður birt 2. júlí 2009.

Nr. 17. 2009
4. júní 2009

Til baka