Yfirlýsing peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands: Óbreytt aðhald peningastefnunnar
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að aðhald peningastefnunnar verði óbreytt. Nánar tiltekið hefur peningastefnunefndin ákveðið að vextir lána gegn veði verði áfram 12% og vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana 9,5%. Hins vegar hefur nefndin ákveðið að efnt verði til útboðs innstæðubréfa til 28 daga, með 9,5% lágmarksvöxtum og 10% hámarksvöxtum. Að auki hefur peningastefnunefndin ákveðið að lækka daglánavexti úr 16% í 14,5%.
Sakir rúmrar lausafjárstöðu bankakerfisins hafa bankar almennt ekki haft þörf fyrir lausafjárfyrirgreiðslu Seðlabankans. Frá aprílmánuði 2009 hafa því þeir Seðlabankavextir sem mest áhrif hafa á aðra skammtímavexti, t.d. peningamarkaðsvexti og innlánsvexti í bankakerfinu, verið vextir á innlánsreikningum bankans. Eins og áður hefur komið fram eru þessir vextir 9,5%. Vísbendingar eru um að miðað við þá vexti sé umframlausafé til staðar, sem er ástæða þess að efnt verður til útboðs innstæðubréfa.
Gengi krónunnar hefur haldist nokkuð stöðugt frá síðustu vaxtaákvörðun hinn 13. ágúst, þrátt fyrir að verulega hafi dregið úr inngripum Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði. Velta á gjaldeyrismarkaði hefur einnig aukist. Gengi krónunnar hefur þó áfram verið lágt, sem hefur hægt á hjöðnun verðbólgunnar. Eigi að síður er þess vænst að sökum mikils slaka í efnahagslífinu, sem dregur úr hættu á því að nýlegar hækkanir vindi upp á sig, muni verðbólga hjaðna ört á ný síðar á árinu.
Ýmis jákvæð teikn eru á lofti. Á sama tíma og dregið hefur úr þörf fyrir inngrip hefur afgangur á vöru- og þjónustujöfnuði við útlönd verið nokkru meiri en vænst var. Uppsöfnun á gjaldeyrisinnstæðureikningum fyrirtækja í bönkunum hefur stöðvast. Útflutningsverðlag hefur styrkst. Einnig hefur áhættuálag á krónueignir haldið áfram að minnka, eins og m.a. birtist í lækkandi skuldatryggingarálagi.
Að farið sé í kringum gjaldeyrishöftin hefur lengi verið áhyggjuefni og stuðlað að lágu gengi krónunnar. Til viðbótar því að tryggja næga ávöxtun krónueigna hefur Seðlabankinn því gripið til aðgerða er miða að því að efla eftirlit og framfylgd haftanna.
Skilyrði fyrir því að hægt sé að byrja að afnema höft á fjármagnshreyfingar í áföngum gætu bráðlega verið til staðar, að því gefnu að tvíhliða og fjölþjóða fjármögnun sé tryggð. Meðal annarra skilyrða má nefna að stjórnvöld haldi áfram að fylgja eftir langtímaáætlun í ríkisfjármálum, eins og þau hafa skuldbundið sig til, og að endurskipulagning fjármálakerfisins sé langt komin. Í meginatriðum hefur þessum markmiðum verið náð. Í því sambandi er rétt að leggja áherslu á að fyrsta endurskoðun framkvæmdastjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun stjórnvalda er mikilvægt skref í þá átt að auka tiltrú á íslenskt efnahagslíf og er því forsenda þess að afnám fjármagnshafta takist vel. Á meðan á umbreytingaskeiðinu stendur munu ákvarðanir í peningamálum taka mið af því markmiði að stuðla að stöðugu gengi krónunnar.
Nr. 32/2009
24. september 2009