Seðlabankastjóri með erindi á ráðstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um efnahags- og hagvaxtarstefnu eftir bankahrunið
Már Guðmundsson seðlabankastjóri verður með erindi í umræðum um alþjóðlegt peningakerfi á ráðstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um efnahags- og hagvaxtarstefnu, en á ensku ber ráðstefnan heitið Macro and Growth Policies: A Post-Crisis Conversation.
Ráðstefnan er send út beint á vef Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en hún hefst í dag kl. 14:00 að íslenskum tíma. Meðal þekktra hagfræðinga sem eru í fyrirsvari á ráðstefnunni eru Nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz og Olivier Blanchard yfirmaður rannsókna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Á morgun kl. 16:00 að íslenskum tíma hefst ráðstefnuhluti um hið alþjóðlega peningakerfi og verður Már Guðmundsson seðlabankastjóri þar með erindi.
Nánari upplýsingar um þessa ráðstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru aðgengilegar hér að neðan, en þar er jafnframt hægt að fá aðgang að vefútsendingu frá ráðstefnunni.
Hér má nálgast beina útsendingu frá ráðstefnunni á vef Alþjóðagjaldeyrissjóðsins: Macro and Growth Policies: A Post-Crisis Conversation.