Málstofa um ríkisfjármálaráð og ríkisfjármálamarkmið
Torben M. Andersen, prófessor í hagfræði við Árósaháskóla, hefur framsögu um reynslu af mismunandi aðferðum við að stjórna þróun ríkisfjármála á málstofu í Seðlabanka Íslands næstkomandi föstudag, 21. október kl. 15. Torben hefur mikið skoðað ríkisfjármál í rannsóknum sínum en hann hefur einnig praktíska reynslu af stjórnun ríkisfjármála og er nú meðlimur í sænska ríkisfjármálaráðinu.
Málstofan er haldin í fundarsalnum Sölvhóli, Seðlabanka Íslands. Gengið er inn um aðaldyr Seðlabankans frá Arnarhóli.
Torben M. Andersen lauk doktorsprófi í hagfræði frá Kaþólska háskólanum í Louvain í Belgíu árið 1986 og hefur verið prófessor í hagfræði við Árósaháskóla frá árinu 1989. Rannsóknir hans eru einkum á sviði velferðarríkisins, vinnumarkaðshagfræði og ríkisfjármála og hefur hann ritað eða verið meðhöfundur að vel á annað hundrað greinum sem birtar hafa verið í ritrýndum tímaritum auk þess sem hann hefur ritað eða verið meðhöfundar að á annan tug bóka. Hann er meðlimur í rannóknarstofnunum CEPR í London, CESifo í München, Iza í Bonn, SNS í Stokkhólmi og Kiel stofnuninni í Þýskalandi. Auk þess hefur hann stundað ráðgjöf á sviði hagstjórnar í Danmörku og öðrum löndum, þar á meðal hefur hann verið formaður danska hagfræðingaráðsins og dönsku velferðarnefndarinnar, en hann var varaformaður í sænska ríkisfjármálaráðinu fram til 14. febrúar á þessu ári.