logo-for-printing

17. febrúar 2012

Matsfyrirtækið Fitch hækkaði í dag lánshæfiseinkunn Ríkissjóðs Íslands

Matsfyrirtækið Fitch hækkaði í dag lánshæfiseinkunn Íslands fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt í BBB- úr BB+. Lánshæfiseinkunnin fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt var einnig hækkuð í F3 úr B og einkunnin fyrir lánshæfisþak Íslands í BBB- úr BB+. Lánshæfiseinkunnin BBB+ fyrir langtímaskuldbindingar í innlendri mynt var staðfest með stöðugum horfum.

Hér á eftir má finna lauslega þýðingu á fréttatilkynningu Fitch:

Matsfyrirtækið Fitch hefur hækkað lánshæfiseinkunn Íslands fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt í BBB- úr BB+. Lánshæfiseinkunnin fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt var einnig hækkuð í F3 úr B og einkunnin fyrir lánshæfisþak Íslands í BBB- úr BB+. Lánshæfiseinkunnin BBB+ fyrir langtímaskuldbindingar í innlendri mynt var staðfest með stöðugum horfum.

„Hækkunin á lánshæfiseinkunn Ríkissjóðs Íslands fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt í fjárfestingarflokk endurspeglar þann árangur sem náðst hefur frá bankahruninu við að endurheimta stöðugleika í hagkerfinu, framfylgja kerfisumbótum og endurbyggja lánstraust ríkissjóðs. Ísland hefur lokið vel heppnuðu samstarfi við AGS og endurheimt aðgang að alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Vænlegur efnahagsbati er hafinn og endurskipulagning fjármálageirans er vel á veg komin. Auk þess bendir traust áætlun um styrkingu ríkisfjármála til þess að hlutfall ríkisskulda af landsframleiðslu hafi náð hámarki árið 2011“ segir Paul Rawkins, framkvæmdastjóri hjá Fitch.

Ísland var fyrsta fórnarlamb alþjóðlegu fjármálakreppunnar, en lauk við þriggja ára endurreisnaráætlun með stuðningi AGS með góðum árangri í ágúst 2011. Þrátt fyrir bakslag á sumum sviðum lagði áætlunin grunninn að því að efla hagvöxt, sem mældist 3% á árinu 2011 og náði ríkissjóður þeim árangri að gefa út skuldabréf á alþjóðlegum fjármálamarkaði um mitt ár 2011. Sveigjanlegir vinnu- og framleiðslumarkaðir og fljótandi gengi hefur stuðlað að jafnvægi í utanríkisviðskiptum og haldið niðri atvinnuleysi. Fjármálageirinn hefur auk þess dregist saman og er nú um einn fimmti af stærðinni fyrir hrun.

Árangur landsins í ríkisfjármálum byggir á traustum grunni ára og hefur Ísland verið í forystusveit á því sviði meðal þróaðra landa. Halli á frumjöfnuði hefur lækkað úr 6,5% af VLF árið 2009 í 0,5% árið 2011 og landið virðist á góðri leið með að ná afgangi á frumjöfnuði frá 2012 og tekjuafgangi frá 2014.

Fitch telur að vergar skuldir hins opinbera hafi líklega náð hámarki kringum 100% af VLF árið 2011 (þá er undanskilin hugsanleg skuldbinding vegna Icesave). Hrein skuldastaða er umtalsvert lægri eða um 65% af VLF, og þá er tekið tillit til aðgengilegrar innstæðu í Seðlabankanum. Verði komist hjá frekari áföllum ætti Ísland að sjá stöðuga lækkun skuldahlutfalls hins opinbera af landsframleiðslu frá árinu 2012. Sú niðurstaða miðast við að hagkerfið haldi áfram að ná sér á strik og ríkisstjórnin haldi fast við markmið sín í ríkisfjármálum til meðallangs tíma. Miklar innstæður hins opinbera á reikningum í Seðlabankanum og metstærð gjaldeyrisvaraforða draga úr áhyggjum vegna skammtímafjármögnunar ríkissjóðs. Samt sem áður er veruleg hætta á að viðbótarskuldbindingar kunni að falla á ríkissjóð.

Óhefðbundin viðbrögð Íslands við bankakreppunni hafa náð að verja lánstraust hins opinbera. Samt sem áður eru ýmis mál óleyst, einkum hin langvinna deila um Icesave, innstæðureikninga sem útibú Landsbankans í Bretlandi og Hollandi stofnaði til, auk þess sem afnám fjármagnshafta hefur dregist á langinn.

Áhrif Icesave á lánstraust hins opinbera hefur farið minnkandi og Landsbankinn hefur hafið endurgreiðslu á innstæðukröfum. Þrátt fyrir það telur Fitch að Icesave geti enn valdið hækkun á skuldum hins opinbera um 6-13% af VLF ef úrskurður EFTA dómstólsins verður Íslandi í óhag. Lausn á Icesave deilunni er mikilvægt skref í þá átt að koma aftur á eðlilegum samskiptum við erlenda lánardrottna og fjarlægja þennan óvissuþátt úr fjármálum hins opinbera.

Höftin halda aftur af mögulegu útflæði sem jafngildir allt að 3-4 milljörðum Bandaríkjadala í skuldaviðurkenningum hins opinbera í íslenskum krónum og bankainnstæðna í eigu erlendra aðila. Fitch telur að afnám hafta gæti tekið langan tíma vegna áhættu sem tengist fjármálastöðugleika, fjáröflun hins opinbera og innstæðugrunni bankakerfisins.

Ísland hefur fram að þessu lítið fengið að kenna á skuldakreppu evrusvæðisins og þótt hagvöxtur muni væntanlega hægja á sér í 2-2,5% árin 2012-2013, býst Fitch ekki við að landið dragist inn í samdráttarskeið. Einkageirinn er þó enn mjög skuldsettur – skuldir heimilanna eru yfir 200% af ráðstöfunartekjum og skuldir fyrirtækja 210% af VLF – sem undirstrikar þörf á frekari skuldaaðlögun. Jafnframt er aðalútflutningsgreinin háð framleiðslutakmörkunum og skorti á fjárfestingu sem líður að hluta fyrir hægagang í losun gjaldeyrishafta. Fitch telur að breytingar á lánshæfi muni í framtíðinni ráðast af margvíslegum þáttum svo sem framhaldi á góðum efnahagsbata, aðhaldi í ríkisfjármálum og árangri í lækkun skulda hins opinbera og erlendra skulda. Ísland telst enn til hátekjulanda með gæði stjórnsýslu, félagsþróunar og viðskiptaumhverfis líkari löndum með hátt lánshæfismat fremur en landa í lágum fjárfestingarflokki. Hraðari skuldaaðlögun innanlands, framgangur við afnám hafta, endurvakning góðra samskipta við erlenda lánardrottna og varanlegt jafnvægi í peninga- og gengismálum myndi hjálpa til við frekari hækkun lánshæfismats Íslands sem er nú í fjárfestingaflokki.

Fréttatilkynningu Fitch má sjá hér: Fitch Ratings

Til baka