Málstofa um stöðu íslenskra heimila í aðdraganda og í kjölfar hrunsins
Þriðjudaginn 3. apríl klukkan 15:00 verður haldin málstofa í fundarsal
Seðlabankans, Sölvhóli um þetta efni.
Frummælendur verða Þorvarður Tjörvi
Ólafsson og Karen Á. Vignisdóttir, hagfræðingar á hagfræði- og
peningastefnusviði Seðlabankans. Á málstofunni verða kynntar lokaniðurstöður á
greiningu á stöðu íslenskra heimila á undanförnum árum.
Kynningin byggir á ítarlegri rannsóknarritgerð (Working Paper) um
fjárhagsstöðu íslenskra heimila sem verður birt um miðjan apríl. Greiningin
lýtur í meginatriðum að því hvernig staða heimila þróaðist frá ársbyrjun 2007
til ársloka 2010. Hins vegar eru áhrif aðgerða er voru framkvæmdar að þeim tíma
loknum einnig skoðuð. Tekið er tillit til svokallaðrar 110% leiðar, sérstakrar
vaxtaniðurgreiðslu og endurútreiknings gengistryggðra lána (þó ekki nýuppkveðins
dóms), auk greiðslujöfnunar, frystinga og fleiri aðgerða. Þá eru einnig skoðuð
áhrif flatrar niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána.
Meginviðfangsefni
greiningarinnar eru eftirfarandi:
1. Hvernig hefur hlutfall
skuldsettra heimila í greiðsluvanda þróast yfir þetta fjögurra
ára tímabil?
2. Hvernig hefur hlutfall skuldsettra húseigenda með
neikvætt eigið fé þróast, þ.e. þeirra sem skulda meira en þeir eiga og eru því í
skuldavanda?
3. Hvernig hefur hlutfall húseigenda í þeirri sérlega
viðkvæmu stöðu að vera bæði í greiðslu- og skuldavanda þróast?
4. Hvaða
áhrif hafa aðgerðir til handa heimilum haft og hvernig hafa þær dreifst á
skuldsett heimili? Hefur afrakstur aðgerðanna skilað sér fyrst og fremst til
þeirra sem eru í vanda?
Niðurstöður greiningarinnar eru sýndar fyrir ólíka hópa, t.d. á grundvelli tekna, gjaldmiðlasamsetningu lána, fjölskyldugerðar, aldurs og búsetu. Sérstök áhersla er lögð á að sýna einkenni hópsins í vanda. Þá er staða íslenskra heimila einnig sett í alþjóðlegt samhengi.