logo-for-printing

23. apríl 2012

Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington dagana 20. til 22. apríl 2012

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sótti vorfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem haldinn var í Washington í Bandaríkjunum, en hann er fulltrúi Íslands í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Seðlabankastjóri átti fjölmarga fundi um málefni Íslands með yfirstjórnendum og starfsfólki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sótti einnig fundina. Fulltrúi kjördæmisins í fjárhagsnefnd AGS var að þessu sinni efnahags- og innanríkisráðherra Danmerkur, Margrethe Vestager og má nálgast yfirlýsingu kjördæmisins hér að neðan.

Í ályktun fjárhagsnefndar AGS kemur m.a. fram að alþjóðahagkerfið sé hægt og bítandi að taka við sér og að hagvaxtarhorfur í alþjóðahagkerfinu séu nokkuð góðar þó að blikur séu nokkrar. Nefndarmenn voru sammála um að vinna áfram að því í sameiningu að endurreisa traust, endurvekja hagvöxt og skapa störf.

Á föstudeginum 20. apríl flutti seðlabankastjóri erindi á fjárfestamálþingi bankans JP Morgan sem bar titilinn: „Rebalancing Growth and Lifting Capital Controls in Iceland“. Á sunnudeginum 22. apríl tók seðlabankastjóri þátt í hringborðsumræðum um fjármagnshreyfingar og skipulagt skuldauppgjör á vegum Alþjóðasamtaka fjármálafyrirtækja (Institute of International Finance, skammstafað IIF). Þessi samtök hafa í samvinnu við alþjóðlegar opinberar stofnanir þróað viðmiðunarreglur um fjármagnshreyfingar og skipulagt skuldauppgjör. Seðlabankastjóri situr í ráði sem hefur það hlutverk að þróa og standa vörð um reglurnar.

Sjá nánar:
Communique
Ályktun fjárhagsnefndar AGS 2012 (Communiqué of the Twenty-Fifth Meeting of the IMFC April 21, 2012).

Vestager
Yfirlýsing kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Vorfundur 2012 (Margrethe Vestager, efnahags- og innanríkisráðherra Danmerkur).

 

Til baka