logo-for-printing

19. nóvember 2012

Skýrsla AGS

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var hér á landi til viðræðna við íslensk stjórnvöld og aðra hagsmunaaðila í september síðastliðnum. Hinn 12. nóvember síðastliðinn ræddi framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftirfylgniskýrslu sendinefndarinnar um Ísland ( e. Second Post-Program Monitoring Discussion).

Í skýrslunni er fjallað um framgang efnahagsmála og árangur eftir að efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lauk í ágúst 2011. Sjóðurinn birti í dag fréttatilkynningu á heimasíðu sinni þar sem greint er frá umræðunni.

Framkvæmdastjórarnir lýstu almennt ánægju sinni með þann árangur sem náðst hefur á sviði efnahagsmála eftir hrun fjármálakerfisins árið 2008. Einnig var lýst ánægju með að Ríkissjóður Íslands hefur náð að endurnýja aðgang að erlendum lánamarkaði, sem aftur hefur gert ríkissjóði og Seðlabanka Íslands kleift að endurgreiða fyrirfram hluta af lánum sínum til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Norðurlandanna.

Hins vegar kom fram að veruleg áhætta gæti stafað frá efnahagssamdrætti á evrusvæði og ýmsum innlendum þáttum. Stuðningi var lýst við árangurstengda áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem miðar meðal annars að því að minnka krónueignir erlendra aðila. Framkvæmdastjórnin taldi nauðsynlegt að markmið um hallalausan ríkisrekstur náist á tilsettum tíma. Þá var talið æskilegt að auka aðhald peningastefnunnar til að ná verðbólgumarkmiðinu, en stilla þyrfti aðgerðir af til samræmis við aukinn efnahagsbata. Áfram þarf að styrkja fjármálakerfið með því að tryggja nægilegt eigið fé fjármálastofnana og öflugt fjármálaeftirlit.

Sjá hér fyrir neðan skýrslur og önnur gögn sem tengjast umræðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um íslensk efnahagsmál:

Meðfylgjandi er tenging í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í nóvember 2012: Skýrsla AGS, 19. nóvember 2012: Second Post-Program Monitoring Discussion (PDF-skjal)

 

Sjá einnig fréttatilkynningu á vef Alþjóðagjaldeyrissjóðsins: http://www.imf.org/external/np/sec/pn/2012/pn12129.htm

Til baka