22. október 2013
Ný Efnahagsmál um afleiðingar heldni í atvinnuleysi á Íslandi
Út eru komin Efnahagsmál nr. 5, „Ljón í vegi minnkandi atvinnuleysis. Mikilvægi ráðdeildar í ríkisfjármálum, forsjálni í kjarasamningum og varfærni við stjórn peningamála“, eftir Bjarna G. Einarsson og Jósef Sigurðsson. Í greininni er fjallað um þýðingu niðurstöðu nýlegrar rannsóknarritgerðar höfunda um jafnvægisatvinnuleysi á Íslandi fyrir peningastefnuna, stefnuna í ríkisfjármálum, kjarasamningagerð og launaþróun.
Nú þegar samdráttarskeiðinu er lokið og hagvöxtur hefur tekið við sér, er ekki óeðlilegt að spurt sé hver líkleg þróun atvinnuleysis verði á næstu misserum, hvort það haldi áfram að minnka og ef svo er hversu hratt. Svarið veltur m.a. á því hver áhrif kreppunnar voru á jafnvægisatvinnuleysi. Niðurstöður nýlegrar rannsóknarritgerðar höfunda (How „natural“ is the natural rate? Unemployment hysteresis in Iceland, Seðlabanki Íslands Working Paper nr.64) benda til þess að jafnvægisatvinnuleysi hafi aukist töluvert í kjölfar fjármálakreppunnar og þrátt fyrir að það hafi minnkað nokkuð á ný er það enn nokkru meira en það var fyrir kreppuna. Niðurstöðurnar sýna einnig að jafnvægisatvinnuleysi virðist hafa einkenni „heldni“, þ.e. breytingar á eftirspurn hafa ekki aðeins áhrif á atvinnuleysi heldur einnig á jafnvægisstöðu þess. Mikilvægi þess að halda verðbólgu lítilli og stöðugri er því enn meira vegna þessa eiginleika atvinnuleysis. Það er því mikilvægara en ella að stefnan í ríkisfjármálum miði að því að koma í veg fyrir ofþenslu í þjóðarbúskapnum með tilheyrandi verðbólgu og að aðilar vinnumarkaðarins semji ekki um meiri hækkun launakostnaðar en samræmist verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Í þessum Efnahagsmálum er nánar fjallað um þýðingu niðurstöðu rannsóknarinnar fyrir peningastefnuna, stefnuna í ríkisfjármálum, kjarasamningagerð og launaþróun.Efnahagsmál nr. 5 má nálgast hér: Efnahagsmál nr. 5.
Rit í ritaflokknum Efnahagsmál eru hér: Efnahagsmál