Yfirlýsing peningastefnunefndar 11. desember 2013
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum.
Samkvæmt nýbirtum þjóðhagsreikningum var hagvöxtur fyrstu þrjá fjórðunga ársins 3,1%. Það er töluvert meiri vöxtur en Seðlabankinn spáði í nóvember síðastliðnum og samrýmist vísbendingum um sterkan bata á vinnumarkaði sem áður voru komnar fram.
Eftir að hafa aukist nokkuð á þriðja fjórðungi ársins hefur verðbólga minnkað á ný og mældist 3,7% í nóvember. Gengi krónunnar er nokkru sterkara en við síðustu vaxtaákvörðun. Það er þó svipað gengi og gert var ráð fyrir í síðustu verðbólguspá bankans.
Niðurstaða kjarasamninga mun hafa afgerandi áhrif á verðbólguhorfur og þar með á þróun vaxta á næstu misserum. Verði launahækkanir umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiði bankans er líklegt að vextir hans muni að óbreyttu hækka í framhaldinu, sérstaklega ef slakinn í þjóðarbúskapnum minnkar áfram.
Sem fyrr er mikilvægt að í meðferð Alþingis verði aðhald í ríkisfjármálum á næstu árum að minnsta kosti jafn mikið og boðað er í frumvarpi til fjárlaga.
Áætlanir ríkisstjórnar um lækkun verðtryggðra skulda heimila liggja nú fyrir í meginatriðum. Þær munu að öðru óbreyttu auka innlenda eftirspurn. Vegna þess að slakinn í þjóðarbúskapnum er óðum að hverfa mun meiri eftirspurn auka verðbólgu að óbreyttu taumhaldi peningastefnunnar. Meiri eftirspurn mun einnig auka innflutning og draga úr viðskiptaafgangi sem stuðlar að lægra gengi en ella.
Miðað við umfang aðgerðanna og dreifingu þeirra yfir tíma ætti þéttara taumhald peningastefnunnar að duga til þess að verðbólgumarkmiðið náist á næstu misserum, að öðru óbreyttu. Við útfærslu aðgerðanna ætti að huga að því með hvaða hætti megi draga úr neikvæðum hliðarverkunum þeirra á viðskiptajöfnuð og verðbólgu og minnka þannig þörfina á mótvægisaðgerðum peningastefnunnar.
Kröftugri efnahagsbati og ofangreindar aðgerðir stjórnvalda munu að öðru óbreyttu krefjast þess að taumhald peningastefnunnar verði hert hraðar en áður hafði verið búist við. Að hve miklu leyti aðlögunin á sér stað með breytingum nafnvaxta Seðlabankans fer eftir framvindu verðbólgunnar, sem ræðst að miklu leyti af þróun launa og gengishreyfingum krónunnar.
Nr. 42/2013
11. desember 2013
Vextir Seðlabanka Íslands verða eftir ákvörðunina sem hér segir:
Daglánavextir: 7,00%
Vextir af lánum gegn veði til sjö daga: 6,00%
Hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum: 5,75%
Innlánsvextir: 5,00%