logo-for-printing

19. mars 2014

Yfirlýsing peningastefnunefndar 19. mars 2014

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. 

Verðbólga mældist 2,1% í febrúar og hefur hjaðnað nokkuð hratt. Þá benda nýir þjóðhagsreikningar til þess að launakostnaður á ársverk hafi hækkað töluvert minna á síðustu tveimur árum en fyrri tölur höfðu bent til. Einnig eru horfur á að niðurstöður kjarasamninga sem gerðir voru fyrir áramót muni gilda fyrir meginhluta vinnumarkaðarins. 

Minni verðbólga en spáð var í febrúar, auk sterkari krónu og minni launahækkana, valda því að verðbólguhorfur til næstu missera hafa batnað frá því sem áður var talið. Verðbólguvæntingar til skamms tíma hafa einnig lækkað í takt við hjöðnun verðbólgu en verðbólguvæntingar til langs tíma eru enn töluvert yfir verðbólgumarkmiði. 

Horfur á auknum vexti innlendrar eftirspurnar á komandi misserum munu að öðru óbreyttu krefjast þess að raunvextir Seðlabankans hækki. Á móti gætu komið aðgerðir sem leggjast á sveif með peningastefnunni, þ.á m. stefnan í ríkisfjármálum sem fylgt verður á komandi árum. Einnig gætu endurbætur sem styrkja framboðshlið þjóðarbúsins dregið úr framleiðsluspennu og þar með úr verðbólguáhrifum aukinnar eftirspurnar. 

Taumhald peningastefnunnar á hverjum tíma ræðst af verðbólguhorfum. Til skemmri tíma hafa þær batnað, en eins og áður var spáð eru horfur á að verðbólga aukist á ný samfara auknum vexti innlendrar eftirspurnar á sama tíma og slaki snýst í spennu. Það fer eftir þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga næstu mánuði hvort skapast gæti tilefni til lækkunar nafnvaxta. Litið lengra fram á veginn munu raunvextir miðað við ofangreindar horfur þurfa að hækka frekar. Í hve miklu mæli það gerist með hækkun nafnvaxta mun eins og áður ráðast af þróun verðbólgunnar.

 

Nr. 8/2014
19. mars 2014

Vextir Seðlabanka Íslands verða eftir ákvörðunina sem hér segir: 
Daglánavextir: 7,00% 
Vextir af lánum gegn veði til sjö daga: 6,00% 
Hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum: 5,75% 
Innlánsvextir: 5,00%


Vextir við Seðlabanka Íslands 19. mars 2014

Til baka