logo-for-printing

13. apríl 2014

Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2014

Seðlabankastjórar og fulltrúar í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á vorfundi 2014

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sótti vorfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem haldinn var í Washington í Bandaríkjunum dagana 11. til 13. apríl. Seðlabankastjóri átti einnig fundi með stjórnendum og starfsfólki AGS og fulltrúum lánshæfismatsfyrirtækja. Þá tók seðlabankastjóri þátt í hringborðsumræðum á ráðstefnu AGS sem fjallaði um skilameðferð banka sem starfa yfir landamæri og á ráðstefnu Alþjóðasamtaka fjármálafyrirtækja sem fjallaði um alþjóðlegar fjármagnshreyfingar og skuldavanda.


Á fundi fjárhagsnefndar AGS (e. International Monetary and Financial Committee) kynnti framkvæmdastjóri AGS mat sitt á helstu áskorunum varðandi hagstjórn og umbætur á heimsvísu og helstu viðfangsefni AGS (sjá meðfylgjandi). Á fundinum voru lagðar fram greiningar á heimsbúskapnum og hinu alþjóðlega fjármálakerfi. Heimsbúskapurinn heldur áfram að rétta úr kútnum en áhætta er enn til staðar, svo sem mjög lítil verðbólga á evrusvæðinu og hætta á óstöðugleika á fjármálamörkuðum samfara því að dregið er úr slaka peningastefnu í Bandaríkjunum.

Fulltrúi kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í fjárhagsnefnd AGS var að þessu sinni fjármálaráðherra Finnlands, Jutta Urpilainen, og má nálgast yfirlýsingu hennar fyrir hönd kjördæmisins hér að neðan.

Í ályktun fjárhagsnefndar AGS (e. IMFC Communiqué) kemur m.a. fram að efnahagsleg umsvif á heimsvísu halda áfram að aukast. Hins vegar er endurbatinn brothættur og áhætta framundan. Enn er nauðsyn á að hrinda í framkvæmd kerfisbreytingum til að viðhalda efnahagslegum endurbata og styrkja fjármálakerfi. Nefndin lýsti áhyggjum yfir því hversu hægt hefur gengið að ljúka umbótum á skipulagi AGS sem hófust árið 2010 og miða m.a. að aukinni hlutdeild nýmarkaðsríkja í yfirstjórn AGS. Í því sambandi var vísað til mikils dráttar á staðfestingu Bandaríkjaþings.

Sjá nánar:

1. Skýrsla framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um alþjóðleg viðfangsefni. (e. Managing Director´s Global Policy Agenda to the IMFC)

2. Yfirlýsing Jutta Urpilainen, fjármálaráðherra Finnlands, fyrir hönd kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja á vorfundi 2014.pdf

3. Ályktun fjárhagsnefndar AGS á vorfundi 2014

Til baka